Sunday, August 31, 2008

Ég: Eigið þið allar Batman-myndirnar? Laugarásvídjómaðurinn: Auðvitað, annars myndum við nú bara loka.


Það eina sem freistar mín við að fá bílpróf er að geta keyrt í Laugarásvídjó.

Friday, August 29, 2008

Ó ég er svo merkileg og upptekin en hef samt tíma fyrir barbadókú eða hvað hefur eiginlega gengið á.



Nú hef ég aftur gleymt því að blogga í um það bil mánuð. Ég held að það skipti engu máli. Hins vegar langar mig að afsaka mig, eins og til að friða reiða lesendur sem hafa þrotlaust athugað síðuna mína og orðið fyrir vonbrigðum. Afsakið! Haha, afsakið mig elskurnar mínar. Ég hef verið á hátíðum, mér hefur verið boðið í veislur.

Nú grunar mig að fólk dragi sannleiksgildi þessara staðhæfinga minna um samkvæmislíf í efa. Ég skal þá útskýra nánar. Þetta hófst allt með árshátíð Le Chat Botté, kvikmyndaklúbbsins nafntogaða. Á hátíðina mættu báðir meðlimir klúbbsins og einn gestur. Þessi heiðurgestur kvöldsins var Ingólfur Gíslason, stærðfræðingur og skáld, en flutti hann erindi um persónulegt viðhorf sitt til þess sem hann kallaði ,,vönduðustu kvikmyndaverk tuttugustu aldarinnar" auk þess sem hann stjórnaði umræðum að erindi loknu. Kvöldið náði hámarki þegar skálað var í freyðivíni undir fögrum hljómum kvikmyndatónlistarinnar úr Jurassic Park eftir John Williams.

Næsta hátíð var ljóðahátíð Nýhil, en þá var dansað í þrjá daga og þrjár nætur. Ég held að flestum sem hana sóttu hafi þótt agalega gaman, skáldin voru hvert öðru betra (nokkur voru jafnvel best), og pallborðsumræðurnar í Norrænahúsinu og Þjóðminjasafninu sköruðu jafnan fram úr þeim sem haldnar voru á árshátíð Stígvélaða kattarins.
Svo er það djasshátíð sem enn er í gangi. Ég hef farið á tvenna tónleika enn sem komið er. Aðrir þeirra voru meira að segja upptaka, þannig að ég heyrist að öllum líkindum klappa á geisladisk sem mun koma út einhvern daginn.

Vera og Guðný buðu mér svo í sitt hvora afmælisveisluna, en það eru í mínum huga miklar fréttir vegna þess að í vor hitti í Kakó í strætó og sagði að enginn byði mér lengur í afmælið sitt.

Nú eruð þið eflaust orðin þreytt á því að lesa og pirruð yfir því að þið skiljið ekkert í myndunum sem eru efst. Ég skal hjálpa ykkur með það.

Mynd 1: Barbadókú er eins og súdókú, nema með barbafjölskyldunni í staðinn fyrir tölustafi. Ég er afskaplega hrifin af þessari nýju afþreyingu. Það er vissulega líflegra að hafa allar þessar persónur, sem allar hafa sinn lit og persónuleika sem komið er til skila með fylgihlut eða stellingu, heldur en að hafa tölustafi sem, í samanburði við barbafjölskylduna, líta allir eins út.

Mynd 2: Atriði úr myndinni The Damned Don't Cry, tveir menn með byssur og Joan Crawford. Báðir elska hana og líka einn annar. Það hlýtur að vera þreytandi að vera femme fatale.
Ég vildi bara draga athygli að myndunum hennar Crawford vegna þess að undanfarnar tvær vikur hef ég horft á fimm slíkar - Humoresque, Possessed, The Damned Don't Cry, Grand Hotel og Mildred Pierce. Flestar teljast þær til rökkurmynda (film noir) og ég verð eiginlega að mæla með þeim, sérstaklega þegar rignir úti. Ég er að hita upp fyrir námskeið í háskólanum sem heitir einmitt Rökkurmyndir þannig að bráðum verð ég menntuð í þessu.

Mynd 3: Leikararnir Oskar Werner og Julie Christie sem fara með hlutverk Montags og Lindu/Clarisse í myndinni Fahrenheit 451, en hún er einmitt fyrsta myndin í röð sci-fi mynda sem kvikmyndaklúbburinn sem ég get ekki hætt að tala um ætlar að taka fyrir nú í haust.
Við horfðum semsagt á hana í gærkvöldi og vorum báðar afskaplega hrifnar. Myndin er gerð eftir skáldsögu Ray Bradbury og sýnir hvernig Ameríka gæti barasta orðið í framtíðinni; framtíð þar sem bækur eru bannaðar vegna þess að þær láta fólk hugsa og finna til, en þá hættir það að vera hamingjusamt. Aðalpersónan Montag er slökkviliðsmaður en slökkviliðsmenn í framtíðinni vinna við það að leita uppi bækur og kveikja í þeim. Þetta minnir mig á það þegar ég var að tala við kunningja um það að mér þætti Rape Play ljótur tölvuleikur sem enginn ætti að vera í, en hann talaði þá um það ég vildi bara brenna bækur, til dæmis American Pshyco og The Story of the Eye. Það þykir mjög alvarlegt að vilja brenna bækur út af tjáningarfrelsinu meðal annars.

Aðalatriði:

Leikstjóri: François Truffaut

Tilvitnun:
Clarisse: Is it true that a long time ago, firemen used to put out fires and not burn books?
Montag: Your uncle is right, you are light in the head, put out fires? Houses have always been fireproof.