Friday, July 8, 2011

Bara svona svo það sé á hreinu.

Ég blogga núna hérna: http://gelsa.perspiredbyiceland.com/
og hérna: http://bokvit.blogspot.com/

En ætla samt ekki að eyða Ranghugmyndunum strax.

Sunday, January 2, 2011

Anna Karenína í tólf orðum.

Ó Alexei. Ó Anna. Ó Alexei. Ó Anna. Óóó Alexei. Þögn. *Splass*

Thursday, December 30, 2010

Tárajól 2010: vasaklútamyndir

Mér finnst rétt að birta lista yfir þær myndir sem ég grét mest yfir núna um jólin. Þið eigið það nú inni hjá mér.

Þótt ég hafi horft á margar myndir þessi jól um mæður sem eiga í einhvers konar erfiðleikum (lífið er náttúrulega bara þannig, það er svo erfitt - ekki síst fyrir mæður), grét ég ekki yfir þeim öllum. Stundum táraðist ég aðeins, stundum var ég svalari en Schwarzenegger. En topp þrjár vasaklútamyndir þessara jóla voru:

1) Stella Dallas (1937)

Barbara Stanwick leikur lágstéttarstúlkuna Stellu, sem giftist fínum manni og eignast með honum stúlkubarn. Stella er frekar klikkuð gella, vill til dæmis fara í partí þremur vikum eftir að hafa fætt barn og vill ekki fara snemma heim úr partíinu, þótt eiginmaður hennar, Stephen Dallas, segi henni að gera það. Það er ekki nóg með það að hún sé svona sjúk í skemmtanalífið (og það að kynnast "fína fólkinu" sem hún kemst nú í tæri við eftir að hafa gifst Stephen), heldur er hún óhefluð að flestu leyti - ýmsu í málfari hennar er ábótavant og svo klæðir hún sig alveg hryllilega ósmekklega, hleður á sig blúndum, loðfeldum og (gervi)gimsteinum. Ofan á allt saman neitar hún að flytja með eiginmanni sínum til New York og ákveður að búa ein með dóttur sinni. Hún er semsagt alveg fáránlega erfið - en ég skal lofa ykkur því að þessi kona mun bræða hjarta ykkar með fórnfýsi sinni og móðurást þegar líður á mynd. Ég grenjaði reyndar ekki yfir henni þegar ég sá hana fyrst fyrir svona tveimur árum, en kannski er ég að verða meyr með aldrinum, því úff, í þetta skiptið flóðu tárin í stríðum straumum í nokkrum senum undir lok myndar.

2) Imitation of Life (1959)

Þessi fer líka alveg með mann. Á myndinni fyrir ofan sjáið þið tvær mæðgur - myndin fjallar um þessar mægður. Lora (Lana Turner) er ekkja og einstæð móðir sem á sér draum um að verða leikkona, en Annie (Juanita Moore) er einstæð móðir sem vill hjálpa Loru að láta leikkonudrauminn rætast með því að verða þerna hennar og barnapía (og fá í staðinn þak yfir höfuðið). Lora þarf að glíma við stöðluð vandamál kvenna sem fara út á vinnumarkaðinn, t.d. er Susie dóttir hennar sár yfir því hvað hún fær lítinn tíma með móður sinni, og verður svo auðvitað ástfangin af verðandi stjúpföður sínum. Annie, þernan sem hefur hjarta úr gulli, verður að glíma við það vandamál að hafa eignast dóttur sem er nánast hvít (Annie er semsagt svört). Dóttir Annie, Sarah Jane, afneitar móður sinni vegna þess að hún er svört (en fólk heldur yfirleitt að Sarah Jane sé hvít) og móðir hennar fórnar sér á hetjulegan hátt (lofar að heilsa henni ekki úti á götu, bara ef hún fær að knúsa hana í síðasta sinn og fullvissa sig um að hún muni leita aðstoðar hjá Loru ef eitthvað bjátar á) og deyr svo. Á þeim tímapunkti fór ég að gráta, en þó ekki jafn mikið og Sarah Jane, sem áttar sig á því hvað hún hefur verið vond dóttir og hrópar (þegar hún lætur sig falla á líkkistu móður sinnar): "I killed my mother!"

3) Terms of Endearment (1983)

Ég hafði mínar efasemdir um þessa mynd svona framanaf, en þar sem ég er orðinn svo mikill melódramagrenjusjúklingur, þá varð ég himinlifandi þegar á leið og svik, sjúkdómar og dauði fóru að setja mark sitt á atburðarásina. Fyrrihluta myndar er eiginlega hraðspólað yfir líf mæðgnanna Auroru og Emmu, allt frá því að Emma fæðist. Það er bara gert fullhratt, eftir fimm mínútur er Emma að fara að giftast, eftir aðrar fimm á hún tvö börn. Þegar líða tók á mynd fór að svo hitna í kolunum (svik, veikindi, dauði - eins og ég minntist á áðan) og þá fékk ég að gráta. Þetta er samt ekki eins mikil mæðgnamynd og myndin hér fyrir ofan (og sú sem er á hulstri myndarinnar) gefur til kynna, meira að segja mamma mín fór að kvarta yfir því þegar myndin var svona hálfnuð. Það er aðallega út af því að Emma verður svo fljótt fullorðin, en það er svosem allt í lagi, það sem gerist er miklu sorglegra af því það gerist þegar Emma er fullorðin - ég ætla því ekki að kvarta. Uuum, já. Það má kannski minnast á það að það eru mjög djúsí "kveðjustund á dánarbeðinum"-senur í myndinni, það á reyndar líka við um Imitation of Life, sem við fjölluðum um hér að ofan.


Já, svo eru áramót á morgun. Ef þið viljið að þau verði eftirminnileg, ráðlegg ég ykkur að gera eins og Harry í When Harry Met Sally, eða Fran í The Apartment. Þið verðið að átta ykkur á því, svona rétt um tólf-leytið, að þið elskið einhvern (sem er ekki í herberginu/húsinu). Svo verðið þið að hlaupa þvert yfir borgina (vegalengdin frá kannski Flókagötu á sirka Bárugötu væri til dæmis passleg, óþarfi að hafa þetta of langt) og játa ást ykkar frammi fyrir þessari manneskju. Á meðan þið hlaupið getið þið, ef þið viljið auka líkurnar á jákvæðum viðbrögðum þess sem þið elskið, samið stutta tölu (þá verðið þið eins og Harry), t.d. eitthvað á þessa leið: "ég elska það hvað þú ert lengi í skóna þegar við erum á leiðinni út", "ég elska það hvað þú ert þurr á vörunum á veturna", "ég elska það að þú ert síðasta manneskjan sem ég vil hitta á matmálstímum"(það er traustvekjandi að segjast elska það sem aðrir myndu líklegast hata). Það er hins vegar algjör óþarfi að semja ræðu ef þið eruð viss um að hin manneskjan elskar ykkur líka (eins og Fran er).

Hér eru klippur til að koma ykkur í stuðið:

When Harry Met Sally: http://www.youtube.com/watch?v=4vHB0huQ-BU&feature=related

The Apartment: http://www.youtube.com/watch?v=5wP6pRmL7aQ

Gleðilegt nýtt ár!

Sunday, September 12, 2010

Meira af kvikmyndabloggi.

Þrjár myndir hafa nú bæst við hryllingsmömmuþemað (sem hófst í júní með Die! Die! My Darling!). Við Elín tókum Joan Crawford-kvöld og horfðum fyrst á Strait-Jacket (1964), þar sem Joan leikur geðveika móður, en svo á Mommie Dearest (1981), sem fjallar um það hvernig móðir Joan Crawford var (en hún var alveg snar sko).

Joan í hlutverki hinnar geðveiku Lucy.

Strait-Jacket fjallar um Lucy, sem er í rosalega fínu skapi (hún valhoppar næstum því heim) þangað til hún kemur að eiginmanni sínum í rúminu með annarri konu. Þá verður hún alveg brjáluð og drepur þau bæði, eiginmanninn og hjásvæfuna, með öxi (rosalega finnst mér orðið öxi erfitt...). Það sem er kannski óheppilegast við þetta er að Carol, dóttir Lucy, verður vitni að morðinu:

En þetta gerist allt á fyrstu tveimur mínútum myndarinnar (svona ca.), en afgangurinn af myndinni gerist svona tuttugu árum seinna þegar Lucy er sleppt út í samfélagið aftur og á að búa heima hjá dóttur sinni. Myndin kom mjög skemmtilega á óvart og Joan Crawford er fullkomin í hryllingshlutverkið. Þessar augabrúnir...

En Mommie Dearest var ágæt og svosem fullkomin á eftir hinni. Myndin er byggð á samnefndum endurminningum ættleiddrar dóttur Crawford, Christinu Crawford. Joan er leikin af Faye Dunaway og hún er alveg hræðileg - en ekki svona skemmtilega "ég ætla að drepa þig með öxi"-hræðileg. Þótt að hún sé nú alveg með öxi einu sinni í myndinni:

Nei, Joan Crawford í myndinni er meira svona bipolar alkahólisti með hreinlætis-og fullkomnunaráráttu. Full hversdagsleg fyrir minn smekk. En þetta er svosem áhugavert og það er líka pínulítið fyndið að horfa á svona mynd um leikkonu sem maður heldur mikið uppá, maður er svolítið tregur til þess að trúa því að hún hafi verið svona vond.

En næsta mömmuhryllingsmynd sem við Elín horfðum á var The Baby (1973). Hún var sjúk. Sjúklega skemmtileg og full af sjúkleika. Eftir að hafa horft á þessa mynd og Strait-Jacket, sem báðar höfðu svona "oh, what a twist" endi, þá finnst manni eins og það séu bara allar konur alveg sjúklega klikkaðar í hryllingsmyndum um geðveikar mæður, samúðin er bara minnst með mæðrunum.

Í The Baby kemur dóminerandi móðir, með hjálp dætra sinna tveggja, í veg fyrir eðlilegan þroska sonar síns með því að refsa honum andlega og líkamlega. Sonurinn, sem heitir bara Baby, er kominn yfir tvítugt en virðist aðeins hafa þroska á við ca. ársgamalt barn.

Félagsráðgjafi fær áhuga á Baby og segist sannfærð um að hann geti þroskast meira en hann hefur getað hingað til. Móður Baby líst náttúrulega ekkert á þetta og vill drepa félagsráðgjafann. Endirinn er magnaður, en ég ætla að reyna að standast það að segja frá honum hér, en ég vona að sem flestir sjái þessa mynd á Bakkus í kvöld (já, hún er sýnd á Bakkus í kvöld). Myndin er náttúrulega alveg svolítið óhugnarleg (þetta er nú hryllingsmynd), en hún er líka mjög fyndin, ekki síst vegna Baby, sem er leikinn með miklum tilþrifum.


Anthony Hopkins sem Van Helsing í mynd Coppola.

Nú er svo langt síðan ég hef kvikmyndabloggað að ég get náttúrulega ekki skrifað um allar myndirnar sem ég hef séð síðan síðast. Hryllingsnámskeiðið í háskólanum er byrjað og við búin að horfa á fjórar Drakúla-myndir þar, Nosferatu (1922), Horror of Dracula (1958), Dracula (1931) (með Bela Lugosi! áður hafði ég bara séð hann í Glen or Glenda) og loks Bram Stoker's Dracula frá 1992. Ég var líklega ánægðust með síðustu myndina, sem var leikstýrt af Francis Ford Coppola og þá sérstaklega með Anthony Hopkins í hlutverki Van Helsing. Hann var óskaplega nálægt því að vera illur, í rauninni eins nálægt Drakúla og nokkur lifandi maður gæti verið. Það kom þó á óvart hvað þessi mynd var "staight", þar sem það voru bara hetero-bitsenur, karlar bíta konur og konur bíta karla.

Að l0kum ætla ég bara að minnast á þær tvær myndir sem ég hef farið á í bíó í lok sumars, Inception og Toy Story 3 (já, ég fór á hana án þess að vera með barn með mér).

Nú eru náttúrulega allir búnir að tjá sig um Inception og ég hef í raun ekkert mikið um hana að segja nema að hún er skemmtileg. Mjög skemmtileg mynd. Hún situr reyndar svolítið mikið í mér, mig dreymdi til dæmis illa í síðustu viku og þá hugsaði ég í draumnum: hey, ég get bara drepið sjálfa mig, þá vakna ég! Eins og í Inception! Gott plan, en þegar ég stóð með byssuna í hendinni þá gugnaði ég.


Ég er reyndar mjög hrifin af því að haldið sé í efasemdir um hvað sé raunverulegt alveg út enda myndarinnar. Svo ég blandi námsefni vetrarins inn í þetta, þá held ég að þetta sé dæmi um hið fantastíska sem Todorov fjallaði um. Í lok myndar eru áhorfendurnir og kannski aðalpersóna líka (þótt hann hafi ákveðið að velja þann heim sem hann endar í og ákvörðunin staðfest um leið og hann sér framan í börnin sín) ekki 100% viss um hvað sé raunverulegt og hvað draumur.

Já og svo Toy Story 3. Náttúrulega miklu betri en Toy Story 2, þið hljótið að taka undir það! Mér fannst hún allavega mjög fyndin. Það er líka eitthvað við orðræðuna í þessari mynd sem er komið svo langt. Karl Marx fjallar um það að varan daðri við kaupandann, að fagurfræðilegt tungumál vörunnar sé fengið að láni úr tilhugalífi elskenda. Eða eitthvað svoleiðis. Í Toy Story 3 hafa leikföngin tekið upp þetta tungumál, nema þau er komin lengra. Samband leikfanganna við barnið er eins og ástarsamband, með öllum tilheyrandi skuldbindingum og særindum. Í myndinni er sérstaklega fjallað um það hvað gerist þegar börn verða stór og hætta að leika með dótið (hætta með dótinu eiginlega), og dótið er ýmist biturt yfir því að vera skilið eftir, eða það vonar að eigandinn muni sjá að sér og taka sig aftur, nú eða dótið er að reyna að halda áfram, kynnast nýju barni sem vill elska það. Þessar erfiðu tilfinningar leikfangana er t.d. mjög skýrar í þessu broti:

Þetta er líka svolítið skemmtilegt brot vegna þess að barnið "drepur föðurinn" vegna þess að hann talar svo illa um eigandann (móðurina/ástkonuna) sem hætti með honum og fann nýjan (keypti í rauninni nýjan alveg eins bangsa).

Ókei, bæ.

Sunday, July 18, 2010

Vídjódagbók eða hvernig á maður annars að muna þetta allt saman?

Ég hef ákveðið að skrifa eins mikið og ég get um myndir sem ég horfi á. Ástæða: til þess að ég gleymi ekki um hvað þær eru - eða það sem verra er, gleymi að ég hafi séð þær. Ég gleymi þessu auðvitað ekki strax, en í ellinni, þegar ég sit við drykkju í kellingakommúnunni okkar Kristínar Svövu, munum við lesa facebook-síður og blogg marga áratugi aftur í tímann. Mögulega munum við prenta þetta allt saman út og setja í möppur. Hver veit? Og þá er eins fokking gott að ég geti sullað í sérríi og lesið um myndirnar sem ég varði æsku minni í að horfa á.

Þybbni gaurinn heldur á sílikoni úr brjóstum sænsks þjóðfræðinema sem hafði breyst í lesbíska vampíru, allur útataður í "sæðinu".

Fyrsta mynd kvikmyndaklúbbsins Le Chat Botté þetta sumarið ber hinn stórkostlega titil Lesbian Vampire Killers (2009). Þetta er steikt hryllingsgrínmynd um vini sem fara í ferðalag til ensks smáþorps. Þetta er ekkert venjulegt þorp, vegna þess að fyrir mörgum öldum síðan var lögð sú bölvun á það að dætur bæjarbúa breyttust ekki bara í vampírur, heldur lesbískar vampírur á átján ára afmælisdaginn sinn. Ég veit - þetta hljómar æðislega.
Myndin var samt bara svolítið fyndin. Ekki tímasóun eða neitt svoleiðis (en svo má líka deila um það hversu háan standard ég hef). Það áhugaverðasta við hana er kynjahúmorinn í henni - strákarnir tveir eru mjúkar, viðkvæmar skræfur, en stelpurnar eru annars vegar sænskir þjóðfræðinemar sem líta út eins og soft-core klámmyndaleikkonur og hins vegar afskaplega stíliseraðar "lesbískar" (bara tvær þeirra létu vel hver að annarri) blóðsugur. Strákarnir þurfa svo, ásamt þeirri greindustu af sænsku þjóðfræðinemunum, að sigra vampírurnar - en í hvert skipti sem þeir drepa vampíru dembist yfir þá (og þá sérstaklega annan þeirra, sem er hræddur þybbinn gaur) hvítur slímkenndur vökvi - sem minnir óneitanlega á sæði. Þannig má segja að hvert vampírumorð hafi í för með sér einhvers konar "money shot".

Vagina dentata!

Önnur sumarmynd þess stígvélaða var Tokyo Gore Police (2008). Hún var mjög áhugaverð og ég mæli alveg með henni - fyrir þá sem eru ekki haldnir geldingarótta á háu stigi.
Myndin gerist í Tokyo framtíðarinnar og þar er allt í fokki: lögreglan hefur verið einkavædd (og gerir alveg sjúklega góðar auglýsingar), fólk nýtur þess að skera sig (það eru líka gerðar voða krúttlegar rakvélablaða-auglýsingar) og ofbeldisfullar, stökkbreyttar manneskjur sem geta breytt sárum sínum í vopn, ógna samfélaginu. Aðalpersóna myndarinnar er lögreglukonan Ruka sem fer um með samúrajasverð og ætlar sér að finna og drepa morðingja föður síns.

Meðlimir Le Chat Botté þurfa stundum að gera eitthvað annað en að glápa og þess vegna höfum við ekki horft á fleiri myndir enn. En ég, svona prívat og persónulega, horfði á tvær ágætar myndir í gær.

Þessi mynd af Edward Norton og Richard Gere sýnir glögglega hversu ómögulegt það er fyrir Richard Gere að leika það að honum sé ógnað þegar það er verið að ógna honum. Hann hefur bara þannig andlit að það er alltaf eins og hann sé að fara að brosa. Sorrý.

Fyrri myndin sem ég horfði á, Primal Fear (1996), er hluti af oh-what-a-twist!-þema sem ég er að taka fyrir. Semsagt myndir á borð við The Sixth Sense, The Crying Game, The Others og Oldboy. Jájá, þetta var alveg góð mynd. Svolítill svona "Ég er siðlaus framapotari á Manhattan sem vill gellu(r), peninga og völd" fílingur í henni, sem minnti mig á Wall Street og Boiler Room. Fín mynd.

Rosafallegt á meira en 2000 kílómetra dýpi.

Seinni mynd gærdagsins var The Abyss (1989). Hún er góð, svona "E.T. mætir Alien-myndunum neðansjávar"-mynd. Ég var að minnsta kosti mjög glöð með hana. Það vantaði ekki hin hefðbundu átök milli fólks sem er lokað inni í frekar litlu rými í nokkra klukkutíma: Kynferðisleg spenna milli viðkunnanlegs verkamanns og hámenntaðrar konu sem öllum finnst vera tík. Sturlaður maður sem vinnur fyrir bandaríska herinn ákveður að taka málin í sínar hendur eftir að öll samskipti við yfirborðið eru rofin. - Þetta venjulega: stéttaátök, kynjavesen og valdabarátta.
Það var líka nóg af spennandi neðansjávarsenum þar sem maður er skíthræddur um að súrefnistankurinn tæmist, að fólk drukkni. Það er ein svona sena (sem svipar til senu í Alien: Resurrection minnir mig), þar sem fólk þarf að synda (án kafaraútbúnaðar) töluverðan spotta á milli klefa kafbátarins til að bjarga málunum. Yfir svona senum fer maður ósjálfrátt að halda niðri í sér andanum með persónunum og brjálast af innilokunarkennd og spennu. Það kannast náttúrulega allir við þetta.

Jæja. Þá er þetta bara komið. Nema að ég reyndi að byrja geðveikrarmóður-þemað í kvöld með því að horfa á grínmyndina Smother (2008) með mömmu, en hún var svo léleg að við þurftum að hætta. Eins og titillinn er nú frábær.

Sunday, June 27, 2010

Deyðu! Deyðu elskan mín!

Hin geldandi móðir í Die! Die! My Darling!

Í kvöld horfði ég á mynd sem hefur lúrt og beðið eftir mér í tölvunni um nokkurra mánaða skeið. Ég las fyrst um hana í uppáhaldsbókinni, The Monstrous-Feminine, en þar er minnst á hana í köflum um hina geldandi konu - þá sérstaklega hina geldandi móður. Móðirin sem skrímsli er áberandi í fjölmörgum hryllingsmyndum. Þá er hún yfirleitt pósessíf og stjórnsöm í framkomu við afkvæmi sitt, gjarnan son sinn, eins og til dæmis í þessari mynd Die! Die! My Darling! (eða Fanatic eins og hún er reyndar líka kölluð), Psycho og Friday the 13th. Ég er mjög hrifin af geðveiku mæðrum bíómyndanna, líka þeim sem eiga stelpur, eins og ofsatrúuðu og ráðvöndu mömmurnar í Carrie og Now Voyager (og þótt sú síðarnefnda sé kannski almennt ekki flokkuð sem hryllingsmynd er móðirin í henni skrímsli).

Die! Die! My Darling! fjallar um stúlku sem kemur til Englands með unnusta sínum og ákveður þvert á vilja unnustans, að heimsækja móður fyrrverandi unnusta síns (sem hafði framið sjálfsmorð). Hún keyrir ein að húsi móðurinnar sem er í útjaðri lítils sveitaþorps (sem minnir einna helst á einhvers konar blöndu af sögusviði The Texas Chainsaw Massacre og Psycho). Þar hittir hún dauðhrædda þjónustustúlku, undarlegan mann með riffil og þroskaheftan mann (en nærvera slíkrar persónu er oft notuð til að gera aðstæður óhugnarlegri eins og sjá má í I Spit on Your Grave og Texas Chainsaw, þar sem þroskaheftir menn eru meðfærilegir og hvattir til illra verka af sjúkum vinum eða fjölskyldu). Þar hittir hún auðvitað líka hina hræðilegu móður sem vill að hún gisti nú eina nótt hjá þeim, tali um hinn látna unnusta og biðji fyrir honum. Svo kemur náttúrulega í ljós að mamman er snargeðveik kona sem var einu sinni eldhress leikkona í Hollywood en maðurinn hennar hafði hjálpað henni að sjá að hún lifði ekki Guði þóknanlega og kennt henni að vera siðprúð og hrein. Móðirin vill náttúrulega að konan sem hafði verið trúlofuð syni hennar sé hrein líka, en þegar hún kemst að því að hún er hvorki hrein mey, né ætlar hún sér ekki að lifa ein í sorg þangað til hún sameinast hinum látna syni á himnum, vill hún ekki sleppa henni.

Ég ætla ekki að segja hvað gerist svo (er líklega búin að segja of mikið hvort sem er), en mér fannst bara nokkuð gaman að horfa á þetta, þótt mikið í myndinni hafi verið fyrirsjáanlegt.
Það sem mér fannst líka gaman var að skoða feril leikkonunnar Tallulah Bankhead, sem var í hlutverki móðurinnar. Tallulah var vinsæl leikkona bæði á Broadway og West End, en henni gekk ekki eins vel í kvikmyndum og í leikhúsinu. Það er hægt að lesa ýmsar sögur á netinu um það hversu léttlynd og óhefðbundin kona hún var, mestmegnis er þetta kannski lygi, en ef eitthvað brot af þessu er satt þá finnst mér hún algjör töffari. Hún á víst að hafa sofið hjá ótalmörgum mönnum og konum, en lengsta samband sem vitað er til að hún hafi verið í entist í eitt ár. Ef marka má orðróm var hún "meira en bara vinkona" t.d. Gretu Garbo, Marlene Dietrich, Joan Crawford, Eva Le Gallienne, Alla Nazimova, Mercedes de Acosta og Billie Holliday. Tallulah var þekkt fyrir að halda villt partý, hún var hnyttin og frökk, en átti það líka til að fara úr öllum fötunum.

Ein saga af henni er þannig að hún á að hafa hitt Chico Marx í partýi áður en hún fór að vera þekkt fyrir óheflaða hegðun sína. Fólk hafði áhyggjur af því að hún myndi móðgast vegna einhvers sem Chico segði, en Tallulah kom úr fjölskyldu virtra stjórnmálamanna demókrataflokksins. Búið var að biðja Marx um að halda sig á mottunni þegar þau "hittast við púnsskálina":

Marx: Miss Bankhead.
Tallulah: Mr. Marx.
(Allir í kring andvarpa af létti)
Marx: You know, I really want to fuck you.
Tallulah: And so you shall, you old-fashioned boy.

Það eru reyndar til ótrúlega margar sögur af henni og mörg góð "kvót", en mér er núþegar farið að líða eins og ég sé að slúðra. Það bara kætti mig svo mikið að bera saman sögurnar af henni og svo persónuna sem hún leikur í myndinni.

Tallulah Bankhead, ungt partýdýr.

Tuesday, December 1, 2009

Bratwurst eða afhverju get ég ekki hætt að hugsa um þetta?


Mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvers vegna Þjóðverjar, sem eru svo þekktir fyrir pulsurnar sínar, geta ekki gert pulsubrauð sem passa fyrir pulsurnar. Ég meina, þetta er náttúrulega fyrir neðan allar hellur.

Nú hef ég verið í Berlín í bráðum fjóra mánuði og þetta er það eina sem ég hef að segja.
Takk fyrir.