Sunday, June 27, 2010

Deyðu! Deyðu elskan mín!

Hin geldandi móðir í Die! Die! My Darling!

Í kvöld horfði ég á mynd sem hefur lúrt og beðið eftir mér í tölvunni um nokkurra mánaða skeið. Ég las fyrst um hana í uppáhaldsbókinni, The Monstrous-Feminine, en þar er minnst á hana í köflum um hina geldandi konu - þá sérstaklega hina geldandi móður. Móðirin sem skrímsli er áberandi í fjölmörgum hryllingsmyndum. Þá er hún yfirleitt pósessíf og stjórnsöm í framkomu við afkvæmi sitt, gjarnan son sinn, eins og til dæmis í þessari mynd Die! Die! My Darling! (eða Fanatic eins og hún er reyndar líka kölluð), Psycho og Friday the 13th. Ég er mjög hrifin af geðveiku mæðrum bíómyndanna, líka þeim sem eiga stelpur, eins og ofsatrúuðu og ráðvöndu mömmurnar í Carrie og Now Voyager (og þótt sú síðarnefnda sé kannski almennt ekki flokkuð sem hryllingsmynd er móðirin í henni skrímsli).

Die! Die! My Darling! fjallar um stúlku sem kemur til Englands með unnusta sínum og ákveður þvert á vilja unnustans, að heimsækja móður fyrrverandi unnusta síns (sem hafði framið sjálfsmorð). Hún keyrir ein að húsi móðurinnar sem er í útjaðri lítils sveitaþorps (sem minnir einna helst á einhvers konar blöndu af sögusviði The Texas Chainsaw Massacre og Psycho). Þar hittir hún dauðhrædda þjónustustúlku, undarlegan mann með riffil og þroskaheftan mann (en nærvera slíkrar persónu er oft notuð til að gera aðstæður óhugnarlegri eins og sjá má í I Spit on Your Grave og Texas Chainsaw, þar sem þroskaheftir menn eru meðfærilegir og hvattir til illra verka af sjúkum vinum eða fjölskyldu). Þar hittir hún auðvitað líka hina hræðilegu móður sem vill að hún gisti nú eina nótt hjá þeim, tali um hinn látna unnusta og biðji fyrir honum. Svo kemur náttúrulega í ljós að mamman er snargeðveik kona sem var einu sinni eldhress leikkona í Hollywood en maðurinn hennar hafði hjálpað henni að sjá að hún lifði ekki Guði þóknanlega og kennt henni að vera siðprúð og hrein. Móðirin vill náttúrulega að konan sem hafði verið trúlofuð syni hennar sé hrein líka, en þegar hún kemst að því að hún er hvorki hrein mey, né ætlar hún sér ekki að lifa ein í sorg þangað til hún sameinast hinum látna syni á himnum, vill hún ekki sleppa henni.

Ég ætla ekki að segja hvað gerist svo (er líklega búin að segja of mikið hvort sem er), en mér fannst bara nokkuð gaman að horfa á þetta, þótt mikið í myndinni hafi verið fyrirsjáanlegt.
Það sem mér fannst líka gaman var að skoða feril leikkonunnar Tallulah Bankhead, sem var í hlutverki móðurinnar. Tallulah var vinsæl leikkona bæði á Broadway og West End, en henni gekk ekki eins vel í kvikmyndum og í leikhúsinu. Það er hægt að lesa ýmsar sögur á netinu um það hversu léttlynd og óhefðbundin kona hún var, mestmegnis er þetta kannski lygi, en ef eitthvað brot af þessu er satt þá finnst mér hún algjör töffari. Hún á víst að hafa sofið hjá ótalmörgum mönnum og konum, en lengsta samband sem vitað er til að hún hafi verið í entist í eitt ár. Ef marka má orðróm var hún "meira en bara vinkona" t.d. Gretu Garbo, Marlene Dietrich, Joan Crawford, Eva Le Gallienne, Alla Nazimova, Mercedes de Acosta og Billie Holliday. Tallulah var þekkt fyrir að halda villt partý, hún var hnyttin og frökk, en átti það líka til að fara úr öllum fötunum.

Ein saga af henni er þannig að hún á að hafa hitt Chico Marx í partýi áður en hún fór að vera þekkt fyrir óheflaða hegðun sína. Fólk hafði áhyggjur af því að hún myndi móðgast vegna einhvers sem Chico segði, en Tallulah kom úr fjölskyldu virtra stjórnmálamanna demókrataflokksins. Búið var að biðja Marx um að halda sig á mottunni þegar þau "hittast við púnsskálina":

Marx: Miss Bankhead.
Tallulah: Mr. Marx.
(Allir í kring andvarpa af létti)
Marx: You know, I really want to fuck you.
Tallulah: And so you shall, you old-fashioned boy.

Það eru reyndar til ótrúlega margar sögur af henni og mörg góð "kvót", en mér er núþegar farið að líða eins og ég sé að slúðra. Það bara kætti mig svo mikið að bera saman sögurnar af henni og svo persónuna sem hún leikur í myndinni.

Tallulah Bankhead, ungt partýdýr.