Wednesday, November 5, 2008

Þegar hann horfir á mig er ég Mariah Carey

Hvarvetna heyrist í fólki segja það sama: Kapítalisminn er það skársta sem er í boði (af mörgum illum kostum). Það er auðveldast að leyfa þeirri trú að fylla upp tómið, breiða yfir tilvistarlega eymd okkar.

Ég get ekki annað en tengt það við það sem ég hef verið að lesa þessa dagana, um þekkingu og vald. Þessi orðræða um kapítalismann hefur bara gildi á meðan fólk trúir henni, hún missir mátt sinn ef fólk efast um hana (svona eins og krónan gerði). Valdið hefur gefið staðhæfingunni stöðu þekkingarinnar, en hið ríkjandi kapítalíska kerfi heldur velli vegna þess að það (og orðræðan) stjórnar því hvernig fólk hugsar og hvað það segir (og segir ekki). Við erum öll að passa okkur, fæstir þora að segja að þeir séu á móti kapítalismanum nema þeir séu umkringdir hatursmönnum hans. Það er stöðugt verið að fylgjast með okkur, en það eru sérstaklega við sjálf sem fylgjumst með okkur sjálfum. Nema við kjósum að skipa okkur í jaðarhóp og hrópa opinberlega gegn kapítalismanum, en það veldur því vandamáli að jaðarhópurinn staðfestir miðjuna.

Hvernig er hægt að breyta því hvernig fólk hugsar? Nám á til dæmis að gera það, en það virkar sjaldnast. Aðallega vegna þess að fólk heldur svo oft að nám sé vinna, djöfulsins kjaftæði sem það er. Nám er (fyrir utan það að vera nautn), eitthvað sem á að breyta því hvernig maður hugsar. Hvað annað.. Veit ekki, orgía? Kynlíf gegn kapítalisma?