Þybbni gaurinn heldur á sílikoni úr brjóstum sænsks þjóðfræðinema sem hafði breyst í lesbíska vampíru, allur útataður í "sæðinu".
Fyrsta mynd kvikmyndaklúbbsins Le Chat Botté þetta sumarið ber hinn stórkostlega titil Lesbian Vampire Killers (2009). Þetta er steikt hryllingsgrínmynd um vini sem fara í ferðalag til ensks smáþorps. Þetta er ekkert venjulegt þorp, vegna þess að fyrir mörgum öldum síðan var lögð sú bölvun á það að dætur bæjarbúa breyttust ekki bara í vampírur, heldur lesbískar vampírur á átján ára afmælisdaginn sinn. Ég veit - þetta hljómar æðislega.
Myndin var samt bara svolítið fyndin. Ekki tímasóun eða neitt svoleiðis (en svo má líka deila um það hversu háan standard ég hef). Það áhugaverðasta við hana er kynjahúmorinn í henni - strákarnir tveir eru mjúkar, viðkvæmar skræfur, en stelpurnar eru annars vegar sænskir þjóðfræðinemar sem líta út eins og soft-core klámmyndaleikkonur og hins vegar afskaplega stíliseraðar "lesbískar" (bara tvær þeirra létu vel hver að annarri) blóðsugur. Strákarnir þurfa svo, ásamt þeirri greindustu af sænsku þjóðfræðinemunum, að sigra vampírurnar - en í hvert skipti sem þeir drepa vampíru dembist yfir þá (og þá sérstaklega annan þeirra, sem er hræddur þybbinn gaur) hvítur slímkenndur vökvi - sem minnir óneitanlega á sæði. Þannig má segja að hvert vampírumorð hafi í för með sér einhvers konar "money shot".
Vagina dentata!
Önnur sumarmynd þess stígvélaða var Tokyo Gore Police (2008). Hún var mjög áhugaverð og ég mæli alveg með henni - fyrir þá sem eru ekki haldnir geldingarótta á háu stigi.
Myndin gerist í Tokyo framtíðarinnar og þar er allt í fokki: lögreglan hefur verið einkavædd (og gerir alveg sjúklega góðar auglýsingar), fólk nýtur þess að skera sig (það eru líka gerðar voða krúttlegar rakvélablaða-auglýsingar) og ofbeldisfullar, stökkbreyttar manneskjur sem geta breytt sárum sínum í vopn, ógna samfélaginu. Aðalpersóna myndarinnar er lögreglukonan Ruka sem fer um með samúrajasverð og ætlar sér að finna og drepa morðingja föður síns.
Meðlimir Le Chat Botté þurfa stundum að gera eitthvað annað en að glápa og þess vegna höfum við ekki horft á fleiri myndir enn. En ég, svona prívat og persónulega, horfði á tvær ágætar myndir í gær.
Þessi mynd af Edward Norton og Richard Gere sýnir glögglega hversu ómögulegt það er fyrir Richard Gere að leika það að honum sé ógnað þegar það er verið að ógna honum. Hann hefur bara þannig andlit að það er alltaf eins og hann sé að fara að brosa. Sorrý.
Fyrri myndin sem ég horfði á, Primal Fear (1996), er hluti af oh-what-a-twist!-þema sem ég er að taka fyrir. Semsagt myndir á borð við The Sixth Sense, The Crying Game, The Others og Oldboy. Jájá, þetta var alveg góð mynd. Svolítill svona "Ég er siðlaus framapotari á Manhattan sem vill gellu(r), peninga og völd" fílingur í henni, sem minnti mig á Wall Street og Boiler Room. Fín mynd.
Rosafallegt á meira en 2000 kílómetra dýpi.
Seinni mynd gærdagsins var The Abyss (1989). Hún er góð, svona "E.T. mætir Alien-myndunum neðansjávar"-mynd. Ég var að minnsta kosti mjög glöð með hana. Það vantaði ekki hin hefðbundu átök milli fólks sem er lokað inni í frekar litlu rými í nokkra klukkutíma: Kynferðisleg spenna milli viðkunnanlegs verkamanns og hámenntaðrar konu sem öllum finnst vera tík. Sturlaður maður sem vinnur fyrir bandaríska herinn ákveður að taka málin í sínar hendur eftir að öll samskipti við yfirborðið eru rofin. - Þetta venjulega: stéttaátök, kynjavesen og valdabarátta.
Það var líka nóg af spennandi neðansjávarsenum þar sem maður er skíthræddur um að súrefnistankurinn tæmist, að fólk drukkni. Það er ein svona sena (sem svipar til senu í Alien: Resurrection minnir mig), þar sem fólk þarf að synda (án kafaraútbúnaðar) töluverðan spotta á milli klefa kafbátarins til að bjarga málunum. Yfir svona senum fer maður ósjálfrátt að halda niðri í sér andanum með persónunum og brjálast af innilokunarkennd og spennu. Það kannast náttúrulega allir við þetta.
Jæja. Þá er þetta bara komið. Nema að ég reyndi að byrja geðveikrarmóður-þemað í kvöld með því að horfa á grínmyndina Smother (2008) með mömmu, en hún var svo léleg að við þurftum að hætta. Eins og titillinn er nú frábær.