Sunday, September 12, 2010

Meira af kvikmyndabloggi.

Þrjár myndir hafa nú bæst við hryllingsmömmuþemað (sem hófst í júní með Die! Die! My Darling!). Við Elín tókum Joan Crawford-kvöld og horfðum fyrst á Strait-Jacket (1964), þar sem Joan leikur geðveika móður, en svo á Mommie Dearest (1981), sem fjallar um það hvernig móðir Joan Crawford var (en hún var alveg snar sko).

Joan í hlutverki hinnar geðveiku Lucy.

Strait-Jacket fjallar um Lucy, sem er í rosalega fínu skapi (hún valhoppar næstum því heim) þangað til hún kemur að eiginmanni sínum í rúminu með annarri konu. Þá verður hún alveg brjáluð og drepur þau bæði, eiginmanninn og hjásvæfuna, með öxi (rosalega finnst mér orðið öxi erfitt...). Það sem er kannski óheppilegast við þetta er að Carol, dóttir Lucy, verður vitni að morðinu:

En þetta gerist allt á fyrstu tveimur mínútum myndarinnar (svona ca.), en afgangurinn af myndinni gerist svona tuttugu árum seinna þegar Lucy er sleppt út í samfélagið aftur og á að búa heima hjá dóttur sinni. Myndin kom mjög skemmtilega á óvart og Joan Crawford er fullkomin í hryllingshlutverkið. Þessar augabrúnir...

En Mommie Dearest var ágæt og svosem fullkomin á eftir hinni. Myndin er byggð á samnefndum endurminningum ættleiddrar dóttur Crawford, Christinu Crawford. Joan er leikin af Faye Dunaway og hún er alveg hræðileg - en ekki svona skemmtilega "ég ætla að drepa þig með öxi"-hræðileg. Þótt að hún sé nú alveg með öxi einu sinni í myndinni:

Nei, Joan Crawford í myndinni er meira svona bipolar alkahólisti með hreinlætis-og fullkomnunaráráttu. Full hversdagsleg fyrir minn smekk. En þetta er svosem áhugavert og það er líka pínulítið fyndið að horfa á svona mynd um leikkonu sem maður heldur mikið uppá, maður er svolítið tregur til þess að trúa því að hún hafi verið svona vond.

En næsta mömmuhryllingsmynd sem við Elín horfðum á var The Baby (1973). Hún var sjúk. Sjúklega skemmtileg og full af sjúkleika. Eftir að hafa horft á þessa mynd og Strait-Jacket, sem báðar höfðu svona "oh, what a twist" endi, þá finnst manni eins og það séu bara allar konur alveg sjúklega klikkaðar í hryllingsmyndum um geðveikar mæður, samúðin er bara minnst með mæðrunum.

Í The Baby kemur dóminerandi móðir, með hjálp dætra sinna tveggja, í veg fyrir eðlilegan þroska sonar síns með því að refsa honum andlega og líkamlega. Sonurinn, sem heitir bara Baby, er kominn yfir tvítugt en virðist aðeins hafa þroska á við ca. ársgamalt barn.

Félagsráðgjafi fær áhuga á Baby og segist sannfærð um að hann geti þroskast meira en hann hefur getað hingað til. Móður Baby líst náttúrulega ekkert á þetta og vill drepa félagsráðgjafann. Endirinn er magnaður, en ég ætla að reyna að standast það að segja frá honum hér, en ég vona að sem flestir sjái þessa mynd á Bakkus í kvöld (já, hún er sýnd á Bakkus í kvöld). Myndin er náttúrulega alveg svolítið óhugnarleg (þetta er nú hryllingsmynd), en hún er líka mjög fyndin, ekki síst vegna Baby, sem er leikinn með miklum tilþrifum.


Anthony Hopkins sem Van Helsing í mynd Coppola.

Nú er svo langt síðan ég hef kvikmyndabloggað að ég get náttúrulega ekki skrifað um allar myndirnar sem ég hef séð síðan síðast. Hryllingsnámskeiðið í háskólanum er byrjað og við búin að horfa á fjórar Drakúla-myndir þar, Nosferatu (1922), Horror of Dracula (1958), Dracula (1931) (með Bela Lugosi! áður hafði ég bara séð hann í Glen or Glenda) og loks Bram Stoker's Dracula frá 1992. Ég var líklega ánægðust með síðustu myndina, sem var leikstýrt af Francis Ford Coppola og þá sérstaklega með Anthony Hopkins í hlutverki Van Helsing. Hann var óskaplega nálægt því að vera illur, í rauninni eins nálægt Drakúla og nokkur lifandi maður gæti verið. Það kom þó á óvart hvað þessi mynd var "staight", þar sem það voru bara hetero-bitsenur, karlar bíta konur og konur bíta karla.

Að l0kum ætla ég bara að minnast á þær tvær myndir sem ég hef farið á í bíó í lok sumars, Inception og Toy Story 3 (já, ég fór á hana án þess að vera með barn með mér).

Nú eru náttúrulega allir búnir að tjá sig um Inception og ég hef í raun ekkert mikið um hana að segja nema að hún er skemmtileg. Mjög skemmtileg mynd. Hún situr reyndar svolítið mikið í mér, mig dreymdi til dæmis illa í síðustu viku og þá hugsaði ég í draumnum: hey, ég get bara drepið sjálfa mig, þá vakna ég! Eins og í Inception! Gott plan, en þegar ég stóð með byssuna í hendinni þá gugnaði ég.


Ég er reyndar mjög hrifin af því að haldið sé í efasemdir um hvað sé raunverulegt alveg út enda myndarinnar. Svo ég blandi námsefni vetrarins inn í þetta, þá held ég að þetta sé dæmi um hið fantastíska sem Todorov fjallaði um. Í lok myndar eru áhorfendurnir og kannski aðalpersóna líka (þótt hann hafi ákveðið að velja þann heim sem hann endar í og ákvörðunin staðfest um leið og hann sér framan í börnin sín) ekki 100% viss um hvað sé raunverulegt og hvað draumur.

Já og svo Toy Story 3. Náttúrulega miklu betri en Toy Story 2, þið hljótið að taka undir það! Mér fannst hún allavega mjög fyndin. Það er líka eitthvað við orðræðuna í þessari mynd sem er komið svo langt. Karl Marx fjallar um það að varan daðri við kaupandann, að fagurfræðilegt tungumál vörunnar sé fengið að láni úr tilhugalífi elskenda. Eða eitthvað svoleiðis. Í Toy Story 3 hafa leikföngin tekið upp þetta tungumál, nema þau er komin lengra. Samband leikfanganna við barnið er eins og ástarsamband, með öllum tilheyrandi skuldbindingum og særindum. Í myndinni er sérstaklega fjallað um það hvað gerist þegar börn verða stór og hætta að leika með dótið (hætta með dótinu eiginlega), og dótið er ýmist biturt yfir því að vera skilið eftir, eða það vonar að eigandinn muni sjá að sér og taka sig aftur, nú eða dótið er að reyna að halda áfram, kynnast nýju barni sem vill elska það. Þessar erfiðu tilfinningar leikfangana er t.d. mjög skýrar í þessu broti:

Þetta er líka svolítið skemmtilegt brot vegna þess að barnið "drepur föðurinn" vegna þess að hann talar svo illa um eigandann (móðurina/ástkonuna) sem hætti með honum og fann nýjan (keypti í rauninni nýjan alveg eins bangsa).

Ókei, bæ.