Þótt ég hafi horft á margar myndir þessi jól um mæður sem eiga í einhvers konar erfiðleikum (lífið er náttúrulega bara þannig, það er svo erfitt - ekki síst fyrir mæður), grét ég ekki yfir þeim öllum. Stundum táraðist ég aðeins, stundum var ég svalari en Schwarzenegger. En topp þrjár vasaklútamyndir þessara jóla voru:
1) Stella Dallas (1937)
Barbara Stanwick leikur lágstéttarstúlkuna Stellu, sem giftist fínum manni og eignast með honum stúlkubarn. Stella er frekar klikkuð gella, vill til dæmis fara í partí þremur vikum eftir að hafa fætt barn og vill ekki fara snemma heim úr partíinu, þótt eiginmaður hennar, Stephen Dallas, segi henni að gera það. Það er ekki nóg með það að hún sé svona sjúk í skemmtanalífið (og það að kynnast "fína fólkinu" sem hún kemst nú í tæri við eftir að hafa gifst Stephen), heldur er hún óhefluð að flestu leyti - ýmsu í málfari hennar er ábótavant og svo klæðir hún sig alveg hryllilega ósmekklega, hleður á sig blúndum, loðfeldum og (gervi)gimsteinum. Ofan á allt saman neitar hún að flytja með eiginmanni sínum til New York og ákveður að búa ein með dóttur sinni. Hún er semsagt alveg fáránlega erfið - en ég skal lofa ykkur því að þessi kona mun bræða hjarta ykkar með fórnfýsi sinni og móðurást þegar líður á mynd. Ég grenjaði reyndar ekki yfir henni þegar ég sá hana fyrst fyrir svona tveimur árum, en kannski er ég að verða meyr með aldrinum, því úff, í þetta skiptið flóðu tárin í stríðum straumum í nokkrum senum undir lok myndar.
2) Imitation of Life (1959)
Þessi fer líka alveg með mann. Á myndinni fyrir ofan sjáið þið tvær mæðgur - myndin fjallar um þessar mægður. Lora (Lana Turner) er ekkja og einstæð móðir sem á sér draum um að verða leikkona, en Annie (Juanita Moore) er einstæð móðir sem vill hjálpa Loru að láta leikkonudrauminn rætast með því að verða þerna hennar og barnapía (og fá í staðinn þak yfir höfuðið). Lora þarf að glíma við stöðluð vandamál kvenna sem fara út á vinnumarkaðinn, t.d. er Susie dóttir hennar sár yfir því hvað hún fær lítinn tíma með móður sinni, og verður svo auðvitað ástfangin af verðandi stjúpföður sínum. Annie, þernan sem hefur hjarta úr gulli, verður að glíma við það vandamál að hafa eignast dóttur sem er nánast hvít (Annie er semsagt svört). Dóttir Annie, Sarah Jane, afneitar móður sinni vegna þess að hún er svört (en fólk heldur yfirleitt að Sarah Jane sé hvít) og móðir hennar fórnar sér á hetjulegan hátt (lofar að heilsa henni ekki úti á götu, bara ef hún fær að knúsa hana í síðasta sinn og fullvissa sig um að hún muni leita aðstoðar hjá Loru ef eitthvað bjátar á) og deyr svo. Á þeim tímapunkti fór ég að gráta, en þó ekki jafn mikið og Sarah Jane, sem áttar sig á því hvað hún hefur verið vond dóttir og hrópar (þegar hún lætur sig falla á líkkistu móður sinnar): "I killed my mother!"
3) Terms of Endearment (1983)
Ég hafði mínar efasemdir um þessa mynd svona framanaf, en þar sem ég er orðinn svo mikill melódramagrenjusjúklingur, þá varð ég himinlifandi þegar á leið og svik, sjúkdómar og dauði fóru að setja mark sitt á atburðarásina. Fyrrihluta myndar er eiginlega hraðspólað yfir líf mæðgnanna Auroru og Emmu, allt frá því að Emma fæðist. Það er bara gert fullhratt, eftir fimm mínútur er Emma að fara að giftast, eftir aðrar fimm á hún tvö börn. Þegar líða tók á mynd fór að svo hitna í kolunum (svik, veikindi, dauði - eins og ég minntist á áðan) og þá fékk ég að gráta. Þetta er samt ekki eins mikil mæðgnamynd og myndin hér fyrir ofan (og sú sem er á hulstri myndarinnar) gefur til kynna, meira að segja mamma mín fór að kvarta yfir því þegar myndin var svona hálfnuð. Það er aðallega út af því að Emma verður svo fljótt fullorðin, en það er svosem allt í lagi, það sem gerist er miklu sorglegra af því það gerist þegar Emma er fullorðin - ég ætla því ekki að kvarta. Uuum, já. Það má kannski minnast á það að það eru mjög djúsí "kveðjustund á dánarbeðinum"-senur í myndinni, það á reyndar líka við um Imitation of Life, sem við fjölluðum um hér að ofan.3) Terms of Endearment (1983)
Já, svo eru áramót á morgun. Ef þið viljið að þau verði eftirminnileg, ráðlegg ég ykkur að gera eins og Harry í When Harry Met Sally, eða Fran í The Apartment. Þið verðið að átta ykkur á því, svona rétt um tólf-leytið, að þið elskið einhvern (sem er ekki í herberginu/húsinu). Svo verðið þið að hlaupa þvert yfir borgina (vegalengdin frá kannski Flókagötu á sirka Bárugötu væri til dæmis passleg, óþarfi að hafa þetta of langt) og játa ást ykkar frammi fyrir þessari manneskju. Á meðan þið hlaupið getið þið, ef þið viljið auka líkurnar á jákvæðum viðbrögðum þess sem þið elskið, samið stutta tölu (þá verðið þið eins og Harry), t.d. eitthvað á þessa leið: "ég elska það hvað þú ert lengi í skóna þegar við erum á leiðinni út", "ég elska það hvað þú ert þurr á vörunum á veturna", "ég elska það að þú ert síðasta manneskjan sem ég vil hitta á matmálstímum"(það er traustvekjandi að segjast elska það sem aðrir myndu líklegast hata). Það er hins vegar algjör óþarfi að semja ræðu ef þið eruð viss um að hin manneskjan elskar ykkur líka (eins og Fran er).
Hér eru klippur til að koma ykkur í stuðið:
When Harry Met Sally: http://www.youtube.com/watch?v=4vHB0huQ-BU&feature=related
The Apartment: http://www.youtube.com/watch?v=5wP6pRmL7aQ
Gleðilegt nýtt ár!