Monday, October 6, 2008

Köttinn minn dreymir eitthvað stórkostlegt.

Mér líður grunsamlega vel miðað við það hversu illa bönkunum líður.
Ég get bara ekki annað. Mér þykir veðrið síðustu daga yndislegt, þegar ég kem heim liggur kötturinn svona upp í rúminu og bíður eftir mér, þá fer ég að þýða forngrísku (svo heppilega vill til að það er aldrei minnst á kreppu eða neitt sem gerst hefur allrasíðustu árhundruð í skólabókinni), eða lesa skáldsögu eða um skáldsögur. Jafnvel að horfa á bíómyndir eða lesa um bíómyndir. Hvert sem ég lít eru flóttaleiðir frá því sem ég veit að er að gerast vegna þess að stundum kíki ég í dagblað eða á mbl.is. Ég þarf að fara þessar flóttaleiðir vegna þess að ég veit ekki hvað ég ætti annað að gera. Hins vegar hefur þetta áhrif á allt sem ég hugsa og ég er hrædd um að verða kannski eitthvað skrítin.
Þegar lögreglan ruddist inn í flóttamannabúðir í Njarðvík fyrir ekki svo löngu (manni finnst bara langt síðan vegna þess að fólk er löngu farið að hugsa um annað), fór ég strax að hugsa um bók sem ég var nýbúin með, The Trial, og mér fannst augljóst að það eina sem er furðulegt eða "kafkaesque" við bókina er sú staðreynd að K., maðurinn sem ruðst er inn hjá (í bókinni) án útskýringa eða nærgætni var bankamaður á uppleið. Þegar fólk les bókina (eða sér kvikmyndina sem Orson Welles gerði - mjög góð) finnst því þetta fáránlegt - það setur sig í spor aðalpersónu. En þegar fólk heyrir af því að komið sé svona fram (og jafnvel verr) við flóttamenn þá finnst þeim það einhvern veginn eðlilegra. Flóttafólk er öðruvísi en við (þótt mig langi reyndar frekar að kynnast flóttafólki en háttsettum bankamönnum). Þá fór ég að hugsa um mynd sem ég hafði séð 11. september (á degi húsleitarinnar), The Day the Earth Stood Still. Mér fannst hún líka fjalla um það sem gerðist í Njarðvík; um ótta fólks við hið ókunnuga og það hvernig hystería brýst út í umræðu þar sem menn vita almennt ekki um hvað þeir eru að tala. Lögregla eða yfirvöld hafa leyfi til þess að gera hvað sem er vegna þess að allir eru svo sannfærðir um að hinir ókunnugu hljóti að vera hættulegir og vondir. Þetta er bara dæmi um það hvernig ég hugsa þessa dagana, en það breytir engu þótt ég hugsi svona. Það virðist ekki breyta neinu hvernig maður hugsar, nema maður breytist kannski sjálfur við það.
Nú eru margir að hugsa og skrifa á netið, flestir skrifa (hvort sem þeir eru að blogga eða skrifa athugasemdir við blogg) um það sem er að gerast og ég er fegin því. En ég veit eiginlega ekki hvort það breyti nokkru.

1 comment:

Vera said...

Ég fagna þessari bloggfærslu!
Megir þú lengi lifa! Húrra!