Monday, May 26, 2008

Hrædd ung stúlka mætir óhræddum djasstónlistarmanni.




Í dag hugsaði ég hvort maður ætti að blogga frá því sem maður gerði, svona almennt, þótt það væri ekki merkilegt - til dæmis eins og að segja frá helginni. Ég komst að þeirri niðurstöðu að fæstir hefðu áhuga á því að lesa það.
Erlu þætti samt sérlega vænt um ítarlega úttekt á því sem ég geri af því hún vinnur í banka - þess vegna ætla ég bara að skrifa það sem mér dettur í hug núna, svona fyrir hana og kannski aðra sem vinna í banka.

Á föstudagskvöld hitti ég einmitt hana Erlu ásamt Hildi og við fengum okkur að drekka í bænum. Við hittum marga og allt var þetta kúl, sérstaklega vegna þess að við enduðum á Kaffibarnum. Þar fékk ég hins vegar svo pótent hiksta að ég gat með engu móti losnað við hann og þurfti því að fara heim. Ég hikstaði alla leiðina.

Daginn eftir horfði ég Going to Pieces: The Rise and Fall of the Slasher Film með kettinum í Stórholti. Ég varð afskaplega æst við að horfa á þá mynd vegna þess að ég fór að hugsa um allar slasher-myndirnar (minnir að það hafi verið þýtt slægjumyndir í textanum) og bara allar hryllingsmyndir sem ég hef haft gaman af því að horfa á frá því að ég var svona tólf-þrettán ára. Fyrst sá ég Scream-myndirnar, I Know What You Did Last Summer eitt og tvö, Urban Legend. Á svipuðum tíma leigði ég Psycho með vinkonu minni af því að ég þóttist nú vita að myndin væri klassísk, en þegar vinkonan sá að hún var svarthvít þá vildi hún ekki horfa og sagði bara ,,díses, þetta er svona bé-mynd". Svo tókst mér með erfiðismunum að svindla mér inn á What Lies Beneath í Laugarásbíó, horfði á Silence of the Lambs og framhaldsmyndirnar, The Shining, The Exorcist, Friday the 13th, Rosemary's Baby og Texas Chainsaw Massacre. Mér finnst reyndar alveg ótrúlegt að ég sá allar myndirnar með einhverjum, nema þá síðastnefndu, vegna þess að ég þekki í raun varla neinn sem hefur gaman af hryllingsmyndum. Ég fann sérstaklega fyrir því þegar ég reyndi að halda hryllingsmyndamaraþon fyrir svona tveimur árum og bauð vinum sem eftir hálfa Nosferatu voru farnir inn í eldhús að drekka bjór og að hugsa um að drífa sig í bæinn. Ég lifi mig bara svo inn í þessar myndir, öskra af hræðslu og hlátri (yfirleitt fyrst af hræðslu svo af hlátri) þótt mér hafi reyndar fundist nýjustu hryllingsmyndirnar sem ég hef séð; Cabin Fever, The Ring og Saw, líklega aðeins of hræðilegar, af því að ég virðist hafa bælt niður allar minningar um að hafa horft á þær.

Jæja, ég varð semsagt svo æst yfir þessari mynd sem fjallar um hryllingsmyndir (eða nánar tiltekið slasher-myndir) að mér þótti það frábær hugmynd að horfa á hana aftur, en núna með Ingólfi. Hann hefur alltaf verið lítið fyrir þessa kvikmyndagrein, en ég hélt að það væri kannski bara út af því að eina hryllingsmyndin sem hann man eftir að hafa séð er Poltergeist þrjú þegar hann var fjórtán ára. Kannski þyrfti hann bara að sjá hvað það er mikið til af myndum. Þetta gekk ekki.
Myndin varð hins vegar til þess að ég ákvað að fara á Prom Night, nýju myndina sem nú er sýnd í Háskólabíói og sjá svo gömlu frá 1980 með Jamie Lee Curtis í aðalhlutverki.

En fyrst fór ég á annan atburð í Háskólabíói, tónleika með Wayne Shorter. Tónleikarnir voru ekki aðeins frábærir af því að þeir urðu til þess að ég missti af júróvisjón, heldur er Shorter og hljómsveitin hans svo rosalega góð. Þeir voru allir óhræddir við að spila án þess að stoppa í svona tæpan klukkutíma. Alveg án þess að stoppa fyrir klapp. Mér fannst afskaplega gaman. Það var samt einhver hálfviti sitjandi fyrir framan mig með ruv.is í símanum sínum að fylgjast með úrslitum júróvisjón. Ég hefði viljað sleppa því að hafa hann.

Ýmislegt gerðist í gær, en það gleðilegasta líklega að það sást til botns í óhreinatauskörfunni í fyrsta sinn síðan Ingólfur flutti í þessa íbúð. Okkur þótti þetta tilefni til þess að skála í bjór. (Það er hins vegar líklega rétt að taka það fram að þetta þýðir EKKI að allt sé hreint - þvotturinn hefur verið flokkaður í snyrtilegar hrúgur á stofugólfið, en þá er hægt að skála aftur þegar það sést í stofugólfið á ný)

Í kvöld fór ég svo á Prom Night og hún var ekki góð. Ég varð ekkert hrædd. Heldur ekki Erla. Svo fannst okkur ljóshærða stelpan (sem var aumingjalegasta final girl sem ég hef séð) og vinkonur hennar leiðinlegar og vitlausar.

1 comment:

Unknown said...

Bobby, knúsaðu mig. Það er morðingi á eftir mér og allt er bara eitthvað svo ömó...æji nei, náði hann þér líka!