Saturday, July 5, 2008

Massaðir saxófónleikarar sem eru berir að ofan og olíubornir og hverfandi býflugur.



Nú átta ég mig á því að allir bíða óþreyjufullir eftir því að ég segi þeim hvaða myndir Le Chat Botté hefur horft á og fílósóferað um síðustu vikur. Ég lái ykkur það ekki, enda yfirleitt um merkustu myndir kvikmyndasögunnar að ræða og við höfum nánast undantekningarlaust komist að óvæntum niðurstöðum sem kætt hafa lesendur þessa bloggs óumræðilega.

Fyrri myndin kallast The Lost Boys, en hún er vampýrumynd frá árinu 1987. Myndin er kannski ekki góð á hefðbundinn mælikvarða, en virkaði vegna þess að ég er með blæti fyrir öllu sem á rætur sínar að rekja til níunda áratugarins og Helga laðast að vampýrum. Myndin fjallar um innri baráttu manns sem kemst í kynni við vampýrur: vill hann vera vondur og töff eða góður og ekki eins töff (um leið og menn urðu vampýrur þá urðu þeir svalari, t.d. fengu þeir sér eyeliner), og auðvitað ,,hvernig næ ég í gelluna í sígaunafötunum? - vill hún vonda blóðsugu eða bara venjulegan gaur?"
Svo lendir önnur sögupersóna í álíka erfiðum vandræðum: á hann að drepa bróður sinn bara út af því að hann sýgur blóð úr sakleysingjum? Hvernig leysum við vampýruvanda borgarinnar?
Semsagt: Mynd sem veltir upp áhugaverðum spurningum, en skilur ekkert sérstaklega mikið eftir. Mikið af yfirgengilega töff atriðum, hárgreiðslum og átfittum. Svo eru líka massaðir saxófónleikarar sem eru berir að ofan og olíubornir í einu atriðinu.

Mynd þessarar viku var hins vegar The Happening, nýjasta myndin sem kvikmyndaklúbburinn hefur horft á til þessa. Myndin er óhugnarleg, að minnsta kosti svo óhugnarleg að ég rak upp óp í bíósalnum og hélt fyrir augun í fimm mínútur. Það tók mig þrjá tebolla eftir myndina að ná mér niður. Ég vissi reyndar hvernig hún myndi enda þegar tuttugu mínútur voru liðnar af myndinni, en þetta er líka bara þannig mynd - sá sem skrifaði handritið gerði það eins og maður á að gera það samkvæmt formúlu sem ég las einu sinni. Myndin hefst á því að Mark Wahlberg (sem er náttúrufræðikennari) spjallar við nemendur sína um það að býflugur hafi horfið frá Bandaríkjunum. Á töflunni fyrir aftan hann eru ummæli Einsteins: "If the bee disappears from the surface of the earth, man would have no more than four years to live." (Það er reyndar ekki víst að hann hafi raunverulega sagt þetta, en þetta virkar vel í svona mynd.) Svo fara hræðilegir atburðir að gerast, mjög hræðilegir, eins og sérst á áhyggjusvipnum á fólkinu á neðri myndinni hér fyrir ofan.

Býflugum hefur reyndar fækkað ískyggilega í Bandaríkjunum og víðar undanfarið. Slavoj Žižek hefur meira að segja skrifað um það á Guardian (sjá hér). Myndin tekur því á vandamálum samtímans (t.d. er líka talað um terroristaárásir í NY og hnattræna hlýnun), og gerir okkur óttaslegin yfir þeim. Ég ætla að reyna að vera róleg yfir þessu öllu saman, að minnsta kosti í dag. Fara og kaupa mér ullarnærbol af því að það er útilega í kvöld. Je.