Friday, June 27, 2008

Albínóapönnukökur í of mikilli sól.

Nú hef ég loksins eitthvað örlítið til að blogga um. Sjáiði til, ég var veik í heila viku, en nú hefur mér batnað. Á þessari viku gerðist ekkert nema ég lá, umlaði og drakk meira te en nokkru sinni fyrr á ævi minni.

En nú er ég góð.

Í fyrradag birtist eftir mig gagnrýni á kistunni sem ég hvet alla til þess að ýmist lesa eða leiða hjá sér, allt eftir því hvort þeir hafa áhuga og tíma. Það er sumarfrí. Ég ætla ekki að segja ykkur að gera neitt. (en kommon plís, tjekkið aðeins á 'essu)

Í morgun bakaði ég svo pönnukökur í fyrsta sinn á nýju pönnunni sem amma gaf mér í jólagjöf á meðan ég hlustaði á það sem á þessu heimili kallast ,,kaffibarstónlist"*. Þær voru fölar og frekar þykkar, en allar heilar og þær ljómuðu eins og tungl í fyllingu úti í garði þar sem við átum þær í sólinni.

Eftir pönnukökuát fór ég inn og í afskaplega fallegan sumarkjól. Þegar ég var komin í kjólinn fór ég upp í rúm að lesa bók sem Ingólfur er með í láni sem kallast "Annoying Diabetic Bitch" og sofnaði eftir notaleg ljóð á borð við "Jake Gyllenhaal's Dog", "Squid Versus Assclown" og "Fetish Model Life Partner". Það er mikilvægt að glöggva sig á menningararfi annarra þjóða, einkum með því að rúnka sér yfir ljóðum.

Þegar ég vaknaði eftir svona tveggja tíma svefn, öll ringluð og skrítin, reif ég mig úr kjólnum svo ég geti nú látið sjá mig úti á eftir. Ég ætla sko ekki að vera í einhverjum Söruh-Jessicu-Parker-kjól að drekka latte á Austurvelli. Nei, eftir að ég sá myndina um daginn hef ég áttað mig á því hvaða týpa ég á að vera í SexintheCityheimi. Ég er meðal ljótu kvennanna sem helltu rauðri málningu á pelsinn hennar Samönthu. Þessar sem litu út fyrir það að hafa ekki sofið hjá í þrjú ár (nema kannski hjá skeggjuðum marxistum sem horfa framhjá handarkrikahárum - veit ekki hvort það er tekið með í SexandtheCityheimi).

Ætli ég fari ekki bara í götóttar buxur og bol frá 2004 og gangi um bæinn hreytandi ónotum í fólk í háum hælum eða magabol (flestir búnir að hengja pelsana sína upp í skáp yfir sumartímann). Ekki vil ég hafna því hlutverki sem samfélagið hefur falið mér.

*Kaffibarstónlist: tónlist sem hefur mögulega einhverntímann verið spiluð á Kaffibarnum, eða hefði mögulega einhverntímann getað verið spiluð á Kaffibarnum. Tónlistin þessi er svo spiluð í tíma og ótíma á heimilum fólks sem er ekki nógu svalt til þess að nenna á Kaffibarinn, en líður eins og það sé ógeðslega töff þegar það dansar (og bakar mögulega) með þessa tónlist í botni.

Friday, June 13, 2008

Og svona örlítið til að ljúka bjarnarmálinu..

Í dag heyrði ég frétt í útvarpinu um það að ísbjörninn sem drepinn var fyrir næstum því tveimur vikum hefði verið með magann fullan af mosa þegar hann dó. Hann hafði ekki etið neitt nema jurtir frá því að hann kom í land (vongóður um hlýlegar viðtökur landsmanna). Í kjölfar fréttarinnar játuðu nokkrir bloggarar, sem höfðu haldið því fram að ísbjörnin væri á leið á næsta leikskóla, ýkjur í málflutningi sínum. Björninn hafði víst aldrei sagt það beint, heldur ,,gaf hann það ógeðslega mikið í skyn með augngotum og óviðeigandi bröndurum".
Þá er það komið á hreint. Þetta var bara svona.. uhh.. hvað kalla menn þetta.. árekstur menningarheima - er það ekki?!

"The prom" alveg eins og ég hafði gert mér það í hugarlund.

Eina stundina:

Þá næstu:

Í gær sáu meðlimir Le Chat Botté hyllingsmyndina Carrie. Yndislega falleg mynd sem tekur á mikilvægum málum, til dæmis einelti og erfiðleikunum sem fylgja því að eiga móður sem er ofsatrúargeðsjúklingur. Við könnumst öll við vandamálin sem Carrie þarf að glíma við en fæstum okkar tekst að leysa þau jafn vel.

Aðalatriði:
Það sem gerði myndina sérstæða: Magnaðasta ,,ég var að byrja á blæðingum"-atriði sem ég hef séð í bíómynd.
Veitingar: sterkur Drakúlabrjóstsykur.
Niðurstaða: Raunsönn mynd af veruleika bandarískra unglingstúlkna sem vekur alla fjölskylduna til umhugsunar.

Thursday, June 5, 2008

Það var önd á númer áttatíu.



Í fyrradag var önd úti í næsta garði og hún stóð spök á meðan ég myndaði hana.

Í dag fór ég í búð og keypti bók sem ég hef girnst í margar vikur. Bjóst ekki við því að finna hana, en hún fannst í virkilega góðu ásigkomulagi og ódýrt (hækkaði líklega ekkert í kreppunni). Búðareigandi sagði þetta góða bók og bætti því við að Jón Óskar hafi verið afskaplega hrifinn af París. Vera á eftir að pissa í sig af afbrýðisemi, en ég ætla að leyfa henni að skoða bókina, svona af því að það er hún. Þið hin getið gleymt því! GLEYMT ÞVÍ!!

Tuesday, June 3, 2008

Úps, hann varð víst eitthvað pirraður.

Hmm..
Fyrir aftöku: Hvítabirnir eru ekki friðhelgir á landi en þeir eru friðaðir á hafís eða sjó. Heimilt er að fella þá ef talið er að annað hvort fólki eða búfénaði stafi hætta af þeim, að sögn Páls.

Eftir aftöku: Hvítabjörninn er friðaður að íslenzkum lögum á landi, hafís og sundi, en fanga má hann lifandi og flytja þangað sem hann gerir ekki usla. Hann er þó réttdræpur, þegar hann ógnar lífi manna og skepna.

Jæja ókei, hann er semsagt friðaður á landi en verði hann pirraður þá má skjót'ann. Hver er besta leiðin til að pirra stóran hvítan ísbjörn? Öh, til dæmis með því að safna saman svona fimmtíu-sextíu íslendingum í svona sight-seeing ferð.. Ég meina, ég verð oft svo pirruð ef ég er nálægt nógu mörgum íslendingum að ég gæti talist hættuleg.

Ísbjörn á norðurlandi eða ,,drepum helvítið".


Mér finnst allir á fjölmiðlunum gefa í skyn að þeir vilji hann feigann.

Nú er ég ekki dýraverndunarsinni sem, eins og Egill Helgason skrifaði einu sinni á blogginu sínu, vill bara vernda sætustu dýrin. Það er alls ekki satt, ég hef alltaf verið á móti fegurðarsamkeppnum, líka fegurðarsamkeppnum ómennskra-dýra og mismunun þeirra vegna útlits*. Það er ekkert verra að borða hunda og ketti en kindur og svín. En nú er ég komin út í aðra sálma. Ég hef bara áhyggjur af því að íslendingar vilji drepa þennan ísbjörn.. Svona ,,ef hann fer ekki um leið og við biðjum hann um það þá drepum við helvítið"-stemmning.


*Sbr. færsla á bloggi mínu 17. nóvember 2005:
,,Hárlausir kettir eiga undir högg að sækja í baráttu kettlinganna. Sú staðreynd kom mér ekki á óvart í yfirborðskenndri kroppasýningu. Hins vegar heita ljótu kisurnar svalari nöfnum og persónuleiki þeirra er eflaust ekki síðri en þeirra fallegu, líklegra tel ég að ljótu séu dýpri og meðvitaðri en hinir, lausir við hégómleika og hræsni.

http://kittenwar.com/kittens/losers/
"

Monday, June 2, 2008

Kynþokkafull kona fer úr öðrum hanskanum vegna þess að hún vill ögra manninum sem hún giftist þegar allir héldu að maðurinn með örið væri dáinn!


Alveg er það dæmigert að um leið og ég læt hinn meðlim kvikmyndaklúbbsins Le Chat Botte, hana Helgu, vita af því að ég héldi utan um það sem við horfðum á (hjer á þessu aumkunarverða bloggi), að ég bara gleymi því um leið að skrifa um það sem við sáum síðast.
Síðast sáum við Gildu, mynd sem við höfðum séð áður en vildum endilega kíkja betur á. Á meðan við drukkum sítrónugos og trönuberjasafa dáðist ég að því hvað Gilda (eða Rita Hayworth öllu heldur) er kynþokkafull. Svo komumst við að þeirri niðurstöðu að þær myndir sem við höfum séð þetta sumarið eiga það sameiginlegt að fjalla um fólk í svona "dysfunctional" samböndum; love-hate, sado-maso og þannig lagað. Það eru náttúrulega einu áhugaverðu samböndin til að sýna. Hver nennir að horfa á par sem tekur tillit til tilfinninga og talar málin út, á meðan maður getur horft á pör sem særa og lemja.
Nákvæmlega.

Ég var hrifin af vonda manninum með örið sem var giftur Gildu í myndinni. Svo gott að hafa illmenni með ör, þá er auðveldara að koma auga á þau. Ég hressi sjálfa mig stundum við með því að sjá fyrir mér illmenni með ör þvert yfir andlitið, hlægjandi uppi í háum, demantsskreyttum turni, þegar ég þarf að sjá fyrir mér óvininn - þegar hann blasir ekki við. Ég skal gefa ykkur dæmi:
1)Ég fer í Nóatún með þúsundkall fyrir kvöldmat. Kaupi ódýrari tómatana og eina melónu fyrir helminginn af peningunum, afgangurinn fer í eitthvað með próteini. Ég kem heim og kemst að því tómatarnir eru linir og flestir óætir, en melónan bragðlaus og vond. Þá sé ég fyrir mér vonda manninn með örið hlæjandi.
2)Ég sit geyspandi eftir stóra og megrunarlausa máltíð þegar vinkona hringir og tilkynnir mér að það sé ,,megrunarlaus dagur". Ég verð hissa af því að ég vissi það ekki, en segi nú samt að ég hafi einmitt verið að borða óhollt þannig að þetta henti svosem ágætlega. En það sem þessi dagur gerði raunverulega var að minna mig á það að líf mitt er ekkert annað en röð megrunarlausra daga á meðan allir aðrir eru í megrun og áttu það skilið að fá svona dag. Aftur, vondi örótti maðurinn tekur bakföll í huga mínum.