Wednesday, December 24, 2008

Gleðileg gleðijól.

Ég vil bara nota tækifærið, svona rétt áður en við förum til foreldra Ingólfs með hnetusteikina mína og góða skapið, til að benda á það hversu vitlaus - alveg bara skemmtilega vitlaus - Kolbrún Bergþórsdóttir er. Ég las pistilinn hennar í mogganum í dag og þótt að ég búist nú yfirleitt ekki við neinu gáfulegu, þá gat ég ekki stillt mig um að hlægja og blogga svolítið. Það eru nú jólin. Kolbrún skrifar í pistli sínum um það að fólk sem mótmælir gleðjist ekki um jólin og bara svona almennt og yfirleitt, vegna þess að það er svo á móti öllu og öllum. Þetta þykir mér fyndið vegna þess að ég held að fólk, sem lætur skoðanir sínar í ljós og berst fyrir því sem það trúir á, sé einmitt miklu miklu glaðara og hamingjusamara en þeir sem trúa ekki á það að mótmæli breyti nokkru eða að þjóðfélagið geti orðið betra en það er núna. Fólkið sem situr heima og röflar yfir þeim sem hrópa skoðanir sínar niðri á Austurvelli eða annars staðar - en það er einmitt það sem Kolbrún gerir, röflar og fær útrás fyrir gremju sína, bæði í pistli í mogganum í dag og fyrr í vikunni - hefur gefist upp, eða aldrei áttað sig á óréttlætinu sem gegnsýrir samfélag okkar.

Gleðileg jól!!

Wednesday, December 17, 2008

Stundum er svo gaman að læra fyrir próf..

Kapítalisminn ávarpar þjóðfélagsþegnana sem frjálsa einstaklinga.

Þannig getur kjósandinn að mati Althusser t.a.m. valið á milli ólíkra stjórnmálaflokka og þar með þá stjórn sem hann kýs; munurinn á stjórnmálaflokkunum er hins vegar í reynd lítill og mun minni í framkvæmd en deilurnar gefa í skyn.

Saturday, December 13, 2008

Vel heppnaðar aðgerðir í dag.




Hér eru myndir frá Lækjartorgi.

Svo fórum við áðan á undan kóklestinni niður Laugaveginn og sungum Kók er kúkur kapitalsins. Þeir sem mættu til að horfa á kókauglýsinguna með börnunum sínum brugðust nokkuð vel við og ég komst bara í jólaskap.

Kyngervisusli og seld börn.


Við í Le Chat Botté horfðum á tvær myndir í gærkvöldi: Paris is Burning og Venus Boyz. Þær voru báðar virkilega góðar og fjölluðu báðar um klæðskiptinga, kynskiptinga og samkynhneigða. Eftir að hafa horft á þær leið mér vel, draumar mínir um heim þar sem kynið er á reiki og vonandi einhvern daginn nokkurn veginn óþarft virðast mögulegir. Einhvern tímann.
Vandamál dragdrottninganna í Paris is Burning eru, eins og flestöll vandamál, samfélagsleg og tengd kapítalismanum órjúfanlegum böndum. Til dæmis var sem ungir drengir færu margir hverjir í kynskiptiaðgerð vegna samfélagslegs þrýstings, þ.e. þú verður að vera með píku ef þú klæðir þig eins og kona og dregst að karlmönnum. Það er hættulegt að vera bæði. Annað áberandi vandamál hjá þessum hópi var fátækt vegna útskúfunarinnar og lítilla möguleika, sem olli því að margir leiddust út í vændi.
Það var léttir að horfa á Venus Boyz vegna þess að í þeirri mynd höfðu lesbíur að miklu leyti gefið skít í almenningsálitið, þær virtust ekki einu sinni hugsa út í það hvaða skoðanir aðrir hefðu um þær. Þær einblíndu meira á það hvað þær vildu sjálfar vera og hvernig - algerlega út frá þeim sjálfum. Þær hugsuðu einnig mikið um stöðu konunnar í samfélaginu og það var athyglisvert að fá sjónarhorn þess sem hafði í raun verið meðal fólks bæði sem kona og karlmaður. Reynsla þeirra var sú að mun meiri virðing var borin fyrir þeim þegar fólk taldi að þær væru karlmenn og meira mark var á þeim tekið.
Eitt þarf þó að athuga með þessar myndir: það er mikil gjá á milli klæð-/kynskiptinganna og hommanna í fyrri myndinni og klæð-/kynskiptinganna og lesbíanna í seinni myndinni. Fyrir utan það að tíu ár hafa liðið frá því að Paris is Burning var gerð þegar Venus Boyz er tekin upp, tilheyra þeir sem fram koma í myndunum ólíkum stéttum. Þrátt fyrir að hvorugur hópurinn tilheyri einhverri auðstétt, þá hafa lesbíurnar augljóslega fengið meiri tækifæri til menntunnar heldur en hommarnir, sem búa í gríðarlegri fátækt í Harlem, NY, eftir að fjölskylda þeirra hefur hafnað þeim. Ein lesbían í Venus Boyz ólst meira að segja upp hjá samkynhneigðri móður og tvíkynhneigðum föður og það virðist hafa verið einstaklega gott fyrir hana.
Jæja, ég hef eiginlega ekki tíma til að skrifa meira um þessar myndir, en ég mæli eindregið með því að sjá þær.
Uppáhaldsatriðið mitt var þegar ein lesbía/kynskiptingur var spurður hvort hann væri tvíkynhneigður (bisexual) og hann svaraði að hann hafnaði orðinu tvíkynhneigður vegna þess að það styður tvískiptinguna (binary oppositions) í tvö afmörkuð kyn. Hann vildi frekar segjast vera pansexual (alkynhneigður, víðkynhneigður, fjölkynhneigður?). Yndislegt.

Áðan var verið að verðmerkja Baugsbörnin, eins og ég kýs að kalla þau (myndirnar voru styrktar af Baugur Group og logóið þeirra er innan um myndirnar). Gangandi vegfarendur voru ekki allskostar sáttir með það, sögðu að verið væri að skemma börnin og eyðileggja ,,listaverk". Ég held að mér hafi aldrei á ævi minni verið jafn sama um það hvað fólki, sem er á annarri skoðun en ég í þessu tilfelli, finnst. Að verið sé að eyðileggja börnin með því að skella verðmiðum á myndirnar af þeim á Lækjartogi (sem fólk hefur reyndar verið að tússa, hrækja og æla á í næstum hálft ár) og með því vekja athygli á því að búið er að skuldsetja þessi börn um ca. 11 milljónir hvert, er ekki að eyðileggja þau.
Það að skuldsetja þau er að eyðileggja þau!

Sunday, December 7, 2008

Aaa, nú skil ég.

Ég horfði á Matthildi með Flóka í gærkvöldi og það rann upp fyrir mér hvers vegna mig hefur dreymt að minnsta kosti tvisvar að kennari (alltaf kona), sem mér líkar afskaplega vel við, ættleiði mig. Ég varð fyrir djúpstæðum áhrifum af bæði bókinni og myndinni í æsku.