Tuesday, May 27, 2008

Beware of the dragon that sits on your doorstep.



Ég er farin í sumarbústað þangað til á fimmtudag.
Bless á meðan.

Monday, May 26, 2008

Hrædd ung stúlka mætir óhræddum djasstónlistarmanni.




Í dag hugsaði ég hvort maður ætti að blogga frá því sem maður gerði, svona almennt, þótt það væri ekki merkilegt - til dæmis eins og að segja frá helginni. Ég komst að þeirri niðurstöðu að fæstir hefðu áhuga á því að lesa það.
Erlu þætti samt sérlega vænt um ítarlega úttekt á því sem ég geri af því hún vinnur í banka - þess vegna ætla ég bara að skrifa það sem mér dettur í hug núna, svona fyrir hana og kannski aðra sem vinna í banka.

Á föstudagskvöld hitti ég einmitt hana Erlu ásamt Hildi og við fengum okkur að drekka í bænum. Við hittum marga og allt var þetta kúl, sérstaklega vegna þess að við enduðum á Kaffibarnum. Þar fékk ég hins vegar svo pótent hiksta að ég gat með engu móti losnað við hann og þurfti því að fara heim. Ég hikstaði alla leiðina.

Daginn eftir horfði ég Going to Pieces: The Rise and Fall of the Slasher Film með kettinum í Stórholti. Ég varð afskaplega æst við að horfa á þá mynd vegna þess að ég fór að hugsa um allar slasher-myndirnar (minnir að það hafi verið þýtt slægjumyndir í textanum) og bara allar hryllingsmyndir sem ég hef haft gaman af því að horfa á frá því að ég var svona tólf-þrettán ára. Fyrst sá ég Scream-myndirnar, I Know What You Did Last Summer eitt og tvö, Urban Legend. Á svipuðum tíma leigði ég Psycho með vinkonu minni af því að ég þóttist nú vita að myndin væri klassísk, en þegar vinkonan sá að hún var svarthvít þá vildi hún ekki horfa og sagði bara ,,díses, þetta er svona bé-mynd". Svo tókst mér með erfiðismunum að svindla mér inn á What Lies Beneath í Laugarásbíó, horfði á Silence of the Lambs og framhaldsmyndirnar, The Shining, The Exorcist, Friday the 13th, Rosemary's Baby og Texas Chainsaw Massacre. Mér finnst reyndar alveg ótrúlegt að ég sá allar myndirnar með einhverjum, nema þá síðastnefndu, vegna þess að ég þekki í raun varla neinn sem hefur gaman af hryllingsmyndum. Ég fann sérstaklega fyrir því þegar ég reyndi að halda hryllingsmyndamaraþon fyrir svona tveimur árum og bauð vinum sem eftir hálfa Nosferatu voru farnir inn í eldhús að drekka bjór og að hugsa um að drífa sig í bæinn. Ég lifi mig bara svo inn í þessar myndir, öskra af hræðslu og hlátri (yfirleitt fyrst af hræðslu svo af hlátri) þótt mér hafi reyndar fundist nýjustu hryllingsmyndirnar sem ég hef séð; Cabin Fever, The Ring og Saw, líklega aðeins of hræðilegar, af því að ég virðist hafa bælt niður allar minningar um að hafa horft á þær.

Jæja, ég varð semsagt svo æst yfir þessari mynd sem fjallar um hryllingsmyndir (eða nánar tiltekið slasher-myndir) að mér þótti það frábær hugmynd að horfa á hana aftur, en núna með Ingólfi. Hann hefur alltaf verið lítið fyrir þessa kvikmyndagrein, en ég hélt að það væri kannski bara út af því að eina hryllingsmyndin sem hann man eftir að hafa séð er Poltergeist þrjú þegar hann var fjórtán ára. Kannski þyrfti hann bara að sjá hvað það er mikið til af myndum. Þetta gekk ekki.
Myndin varð hins vegar til þess að ég ákvað að fara á Prom Night, nýju myndina sem nú er sýnd í Háskólabíói og sjá svo gömlu frá 1980 með Jamie Lee Curtis í aðalhlutverki.

En fyrst fór ég á annan atburð í Háskólabíói, tónleika með Wayne Shorter. Tónleikarnir voru ekki aðeins frábærir af því að þeir urðu til þess að ég missti af júróvisjón, heldur er Shorter og hljómsveitin hans svo rosalega góð. Þeir voru allir óhræddir við að spila án þess að stoppa í svona tæpan klukkutíma. Alveg án þess að stoppa fyrir klapp. Mér fannst afskaplega gaman. Það var samt einhver hálfviti sitjandi fyrir framan mig með ruv.is í símanum sínum að fylgjast með úrslitum júróvisjón. Ég hefði viljað sleppa því að hafa hann.

Ýmislegt gerðist í gær, en það gleðilegasta líklega að það sást til botns í óhreinatauskörfunni í fyrsta sinn síðan Ingólfur flutti í þessa íbúð. Okkur þótti þetta tilefni til þess að skála í bjór. (Það er hins vegar líklega rétt að taka það fram að þetta þýðir EKKI að allt sé hreint - þvotturinn hefur verið flokkaður í snyrtilegar hrúgur á stofugólfið, en þá er hægt að skála aftur þegar það sést í stofugólfið á ný)

Í kvöld fór ég svo á Prom Night og hún var ekki góð. Ég varð ekkert hrædd. Heldur ekki Erla. Svo fannst okkur ljóshærða stelpan (sem var aumingjalegasta final girl sem ég hef séð) og vinkonur hennar leiðinlegar og vitlausar.

Thursday, May 22, 2008

Hvað rímar við tungl? -Ungl!


Tungl Méliès var svo óheppið að fá geimfar í augað.

Í dag gerði ég mér ferð á bókhlöðuna, sem er nú kannski ekki í frásögur færandi, en á þessari síðu segi ég margt sem er bara hreint ekki í frásögur færandi.

Á hlöðunni skoðaði ég bók sem heitir Ritgerðir 1958 (árbók skálda) og rakst þar á greinina ,,Til varnar ungum höfundum" eftir Magnús Magnússon. Í greininni fjallar hann um íhaldssemi gagnrýnenda og almennt þeirra sem eldri eru, en minnist í því samhengi á þjóðsöguna ,,Kolbeinn og kölski". Hann vitnar í kölska þar sem hann segir við Kolbein (sem sumir telja að hafi verið Kolbeinn jöklaskáld): ,,Það er ekki kveðskapur að tarna, Kolbeinn."
Magnús segir það táknrænt að djöfullinn í þjóðsögunum standi fyrir íhaldssemi. (Það jaðrar við því að ég setji broskall hér en ég bara get það ekki.)

Ég fletti þessari ágætu þjóðsögu upp áðan, en í henni ákveða kölski og Kolbeinn að hittast á Þúfubjargi og kveðast á. Kölski kvað fyrri hluta næturinnar fyrri helming vísnanna og Kolbeinn botnaði þær, en seinni hluta næturinnar gerði Kolbeinn fyrri hluta, en kölski átti að botna hjá honum. Þetta var ekki saklaus skemmtun hjá þeim (enda um djöfulinn að ræða), vegna þess að sá sem ekki gæti botnað hjá hinum skyldi steypast af bjarginu og verða uppfrá því á valdi hins.
Kolbeini gengur bara helvíti vel að botna og svo virðist sem kölski ætli ekki að verða síðri þangað til Kolbeinn tekur upp hníf og lætur egg hans bera við tunglið og segir:

,,Horfðu í þessa egg egg
undir þetta tungl tungl"

Þá kemur fát á kölska af því að hann kann ekkert orð sem rímar við tungl. Hann fer í vörn og segir (eins og fram hefur komið að ofan) að þetta sé enginn fokking skáldskapur.
Kolbeini tókst þó sjálfum að botna vísuna með því að tala um ,,lið sem hrærir ungl-ungl". Samkvæmt vísindavefnum er hann að leika sér með orðið úlnliður, af því að framburðarmyndirnar ungliður, úlliður og únliður eru til.
Sagan endar með því að kölski steypist ofan fyrir bjargið og ofan í sjó og biður Kolbein aldrei aftur um að koma að kveðast á.

Sumir kunna náttúrulega bara ekki að tapa.

Geðveikt, en þó heilbrigt fólk og Hitler.


Í gær horfðum við í Stígvélaða kettinum eða Le Chat Botté (lagt hefur verið til að kvikmyndaklúbburinn muni héðan af aðeins ganga undir hinu franska nafni), á A Woman Under the Influence. Virkilega flott mynd sem lét okkur engjast um í sófanum af óþægindum á meðan spennan byggðist upp í löngum og erfiðum senum. Alveg hreint yndislegt. Gena Rowlands leikur geðveika konu af mikilli færni, en hins vegar leið mér þó eins og allir í kringum hana væru miklu geðveikari - bara bældir líka.

Nú flýti ég mér í húsvitjun til gamals kattar í Stórholtinu, en áður vil ég benda á uppáhalds hljóðaljóðið mitt.

Tuesday, May 20, 2008

Frá útimorgunkaffi til geldandi zionista.



"Years ago, I wrote a short story about my mother called ‘The Castrating Zionist’ and I wanted to expand it to a novel."

Í morgun drakk ég kaffi úti í garði og það var bara fínt þangað til að skýjin höfðu skyndilega hrannast upp fyrir ofan okkur og allt hafði í einni svipan orðið rigningarlegt. Mér finnst ekkert betra en það að hafa farið aðeins út - þá getur maður farið aftur inn með góðri samvisku og lagt sig.

Í dag blaðaði ég aðeins í Smásögum ungra höfunda frá 1940-55, en rak augun í það í formála ritstjórans að hann varaði við því að ,,stafsetning, en einkum greinamerkjasetning sé með ýmsu móti í bókinni" og að þrátt fyrir að nokkrir höfundar fari eftir skólavenju um greinarmerkjasetningu, geri það ,,varla neinn út í æsar".
Þetta gladdi mig verulega.

Eftir að hafa gengið í barndóm og öskrað af hlátri og æsingi á meðan ég spilaði súpermaríóbros þrjú með Flóka, róaði ég taugarnar með einhverri skemmtilegustu mynd sem ég hef séð og þarf alltaf að vera að sjá aftur.

Mér líður eins og dagurinn hafi haft upphaf, miðju og endi.

Thursday, May 15, 2008

Stúlka með blóðnasir eða hvernig fer fyrir manni noti maður skírlífsbelti



Kvikmyndaklúbburinn Stígvélaði kötturinn var endurvakinn á eftirminnilegan hátt í kvöld.
Mynd: That Obscure Object of Desire eða Cet obscur objet du désir
Drykkur: rauðvín
Léttar veitingar: þrjú kíló af Quality Street sem amma gaf mér í jólagjöf
Undirtektir: einstaklega góðar

Umræður að mynd lokinni snerust að mestu um masókisma, viðsnúin kynhlutverk og hvers vegna skírlífsbelti hættu að vera móðins.

SúperMaríóBros eða hvernig tiltölulega nýtt online ástarsamband hefur á svipstundu staðnað.


Þetta byrjaði vel, fallega jafnvel. Ég hrópaði upp yfir mig: Stóru bræður mínir ættu að sjá mig núna! og Djöfull er ég fokking geðveik! En núna þegar ég fer á retrouprising.com og spila Super Mario Bros geri ég alltaf sömu hlutina. Næ öllum peningunum í fyrsta borði fyrsta heims og verð stór. Svo fer ég í annað borð og næ mér í hvítu smekkbuxurnar, helling af peningum, aukalíf og svindla mér yfir í fjórða heim. Í fyrsta borði í fjórða heimi næ ég mér í annað aukalíf auk þess sem ég kemst undan þessum ógeðslega pirrandi gaur sem er uppi á skýjinu. Því næst svindla ég mér (úr 2b.4h.) yfir í fimmta heim. Klára með léttum leik fyrstu þrjú borðin þótt ég minnki oft niður í litla gaurinn í brúna bolnum fyrir lokaborðið. En þegar kemur að endakallinum, þá bara.. þá bara get ég ekki. Ég dey alltaf í síðasta borði þótt ég byrji með sjö fökkings líf.

Gæli við þá hugmynd að spila frekar Super Mario Bros 2, vera prinsessan sem ögrar þyngdaraflinu með stórfenglegum hoppum sínum.

Jæja, nú hafið þið eflaust lesið áhugaverðasta texta ævi ykkar. Til hamingju með það.

Wednesday, May 14, 2008

Sjá ég boða yður mikinn bloggunað


Fílselur á góðri stundu.

Ég efast strax um það að ,,unaður" sé hentugt orð til þess að lýsa eftirfarandi skrifum. Það er hins vegar alltaf gott að setja sér háleit markmið, ekki?

Jæja, ég ætla allavega að halda áfram sömu skrifum og ég batt enda á í desembermánuði síðastliðnum. Þá fékk ég ógleði. En nú hef ég tekið gleði mína á ný og hef ákveðið að tilgangurinn með fjarstæðukenndu lífi mínu verði að halda áfram að skrifa um ósýnilega ketti og viðurstyggilega gott veður. Ég varð að finna eitthvað.

Á dögum sem þessum, þegar sólin skín svo ákaft að mér finnst eins og fólk hljóti að sjá í gegnum mig, velti ég mér yfirleitt upp úr því hvað allt er ekki nógu gott. Ég kenni í brjósti um sjálfa mig. Ó aumingja ég! hrópaði ég upp yfir mig rétt áðan - en síðan áttaði ég mig á því að vandi minn er árstíðabundinn. Hann er hluti af því hver ég er. Ég vil bara ekki að sumarið komi.

Ég get staðfest það að þetta sé hluti af mér (og nú fyllist ég stolti yfir því að ég sé samkvæm sjálfri mér), með því að skoða það hvað ég bloggaði 2005-2007. Mhm. Bloggið er það eina sem sannfærir mig um að ég sé raunverulega eitthvað lengur en fimm mínútur í senn. Bloggið kemur í veg fyrir það að ég týni mér.

Dæmi um það að mér getur þótt það sama með einhverra ára millibili:

4. júní 2005
,,Í dag er bölvanlega gott veður. Það gott að ég gat ekki gert það sem ég hafði hug á og hafði skipulagt í þaular. Verið inni, lesið og spilað á píanóið. Ég þoli ekki svona blíðu."

29.apríl 2007
,,Veðrið í fyrradag var sérlega geðslegt. Skýjað, örlítil rigning og rok. Þetta fyllti mig slíkri öryggiskennd að ég brosti allan daginn. Mér þótti sem ævi mín öll þyti hjá frammi fyrir augum mér og allir rigningar-roksdagarnir urðu til þess að ánægjuhrollur læddist niður hryggjasúlu mína."



Auðlesin útgáfa af þessari færslu:

Líf tilgangslaust.
Blogg aumkunarverður tilgangur, en það eina sem ég sé í stöðunni.
Blogg styður ranghugmyndirnar um að ég sé að einhverju leyti söm.