Monday, December 29, 2008
Wednesday, December 24, 2008
Gleðileg gleðijól.
Gleðileg jól!!
Wednesday, December 17, 2008
Stundum er svo gaman að læra fyrir próf..
Þannig getur kjósandinn að mati Althusser t.a.m. valið á milli ólíkra stjórnmálaflokka og þar með þá stjórn sem hann kýs; munurinn á stjórnmálaflokkunum er hins vegar í reynd lítill og mun minni í framkvæmd en deilurnar gefa í skyn.
Saturday, December 13, 2008
Vel heppnaðar aðgerðir í dag.
Kyngervisusli og seld börn.
Við í Le Chat Botté horfðum á tvær myndir í gærkvöldi: Paris is Burning og Venus Boyz. Þær voru báðar virkilega góðar og fjölluðu báðar um klæðskiptinga, kynskiptinga og samkynhneigða. Eftir að hafa horft á þær leið mér vel, draumar mínir um heim þar sem kynið er á reiki og vonandi einhvern daginn nokkurn veginn óþarft virðast mögulegir. Einhvern tímann.
Vandamál dragdrottninganna í Paris is Burning eru, eins og flestöll vandamál, samfélagsleg og tengd kapítalismanum órjúfanlegum böndum. Til dæmis var sem ungir drengir færu margir hverjir í kynskiptiaðgerð vegna samfélagslegs þrýstings, þ.e. þú verður að vera með píku ef þú klæðir þig eins og kona og dregst að karlmönnum. Það er hættulegt að vera bæði. Annað áberandi vandamál hjá þessum hópi var fátækt vegna útskúfunarinnar og lítilla möguleika, sem olli því að margir leiddust út í vændi.
Það var léttir að horfa á Venus Boyz vegna þess að í þeirri mynd höfðu lesbíur að miklu leyti gefið skít í almenningsálitið, þær virtust ekki einu sinni hugsa út í það hvaða skoðanir aðrir hefðu um þær. Þær einblíndu meira á það hvað þær vildu sjálfar vera og hvernig - algerlega út frá þeim sjálfum. Þær hugsuðu einnig mikið um stöðu konunnar í samfélaginu og það var athyglisvert að fá sjónarhorn þess sem hafði í raun verið meðal fólks bæði sem kona og karlmaður. Reynsla þeirra var sú að mun meiri virðing var borin fyrir þeim þegar fólk taldi að þær væru karlmenn og meira mark var á þeim tekið.
Eitt þarf þó að athuga með þessar myndir: það er mikil gjá á milli klæð-/kynskiptinganna og hommanna í fyrri myndinni og klæð-/kynskiptinganna og lesbíanna í seinni myndinni. Fyrir utan það að tíu ár hafa liðið frá því að Paris is Burning var gerð þegar Venus Boyz er tekin upp, tilheyra þeir sem fram koma í myndunum ólíkum stéttum. Þrátt fyrir að hvorugur hópurinn tilheyri einhverri auðstétt, þá hafa lesbíurnar augljóslega fengið meiri tækifæri til menntunnar heldur en hommarnir, sem búa í gríðarlegri fátækt í Harlem, NY, eftir að fjölskylda þeirra hefur hafnað þeim. Ein lesbían í Venus Boyz ólst meira að segja upp hjá samkynhneigðri móður og tvíkynhneigðum föður og það virðist hafa verið einstaklega gott fyrir hana.
Jæja, ég hef eiginlega ekki tíma til að skrifa meira um þessar myndir, en ég mæli eindregið með því að sjá þær.
Uppáhaldsatriðið mitt var þegar ein lesbía/kynskiptingur var spurður hvort hann væri tvíkynhneigður (bisexual) og hann svaraði að hann hafnaði orðinu tvíkynhneigður vegna þess að það styður tvískiptinguna (binary oppositions) í tvö afmörkuð kyn. Hann vildi frekar segjast vera pansexual (alkynhneigður, víðkynhneigður, fjölkynhneigður?). Yndislegt.
Áðan var verið að verðmerkja Baugsbörnin, eins og ég kýs að kalla þau (myndirnar voru styrktar af Baugur Group og logóið þeirra er innan um myndirnar). Gangandi vegfarendur voru ekki allskostar sáttir með það, sögðu að verið væri að skemma börnin og eyðileggja ,,listaverk". Ég held að mér hafi aldrei á ævi minni verið jafn sama um það hvað fólki, sem er á annarri skoðun en ég í þessu tilfelli, finnst. Að verið sé að eyðileggja börnin með því að skella verðmiðum á myndirnar af þeim á Lækjartogi (sem fólk hefur reyndar verið að tússa, hrækja og æla á í næstum hálft ár) og með því vekja athygli á því að búið er að skuldsetja þessi börn um ca. 11 milljónir hvert, er ekki að eyðileggja þau.
Það að skuldsetja þau er að eyðileggja þau!
Sunday, December 7, 2008
Aaa, nú skil ég.
Wednesday, November 5, 2008
Þegar hann horfir á mig er ég Mariah Carey
Hvarvetna heyrist í fólki segja það sama: Kapítalisminn er það skársta sem er í boði (af mörgum illum kostum). Það er auðveldast að leyfa þeirri trú að fylla upp tómið, breiða yfir tilvistarlega eymd okkar.
Ég get ekki annað en tengt það við það sem ég hef verið að lesa þessa dagana, um þekkingu og vald. Þessi orðræða um kapítalismann hefur bara gildi á meðan fólk trúir henni, hún missir mátt sinn ef fólk efast um hana (svona eins og krónan gerði). Valdið hefur gefið staðhæfingunni stöðu þekkingarinnar, en hið ríkjandi kapítalíska kerfi heldur velli vegna þess að það (og orðræðan) stjórnar því hvernig fólk hugsar og hvað það segir (og segir ekki). Við erum öll að passa okkur, fæstir þora að segja að þeir séu á móti kapítalismanum nema þeir séu umkringdir hatursmönnum hans. Það er stöðugt verið að fylgjast með okkur, en það eru sérstaklega við sjálf sem fylgjumst með okkur sjálfum. Nema við kjósum að skipa okkur í jaðarhóp og hrópa opinberlega gegn kapítalismanum, en það veldur því vandamáli að jaðarhópurinn staðfestir miðjuna.
Hvernig er hægt að breyta því hvernig fólk hugsar? Nám á til dæmis að gera það, en það virkar sjaldnast. Aðallega vegna þess að fólk heldur svo oft að nám sé vinna, djöfulsins kjaftæði sem það er. Nám er (fyrir utan það að vera nautn), eitthvað sem á að breyta því hvernig maður hugsar. Hvað annað.. Veit ekki, orgía? Kynlíf gegn kapítalisma?
Wednesday, October 8, 2008
Er Lisa Edelstein Joan Crawford endurfædd?
Auðvitað ekki.
Mér finnst þær samt eitthvað svo líkar.
Auk þess fékk ég skyndilega löngun til að birta hér myndir af tveimur af allmörgum sökudólgum þess að ég er að fara að sofa núna, kl. 05:11 og þarf að vakna eftir tvo tíma. Fjórða sería af House - sem ég er blessunarlega búin að horfa á upp til agna (Lisa Edelstein leikur Dr. Cuddy)- og rökkurmyndir (Joan Crawford leikur í nokkrum rökkurmyndum eins og ég hef áður minnst hér á) hafa haldið mér álíka mikið frá náminu og fjármálaumræða síðustu daga. Þessar konur eru bara hættulegar.
Monday, October 6, 2008
Köttinn minn dreymir eitthvað stórkostlegt.
Ég get bara ekki annað. Mér þykir veðrið síðustu daga yndislegt, þegar ég kem heim liggur kötturinn svona upp í rúminu og bíður eftir mér, þá fer ég að þýða forngrísku (svo heppilega vill til að það er aldrei minnst á kreppu eða neitt sem gerst hefur allrasíðustu árhundruð í skólabókinni), eða lesa skáldsögu eða um skáldsögur. Jafnvel að horfa á bíómyndir eða lesa um bíómyndir. Hvert sem ég lít eru flóttaleiðir frá því sem ég veit að er að gerast vegna þess að stundum kíki ég í dagblað eða á mbl.is. Ég þarf að fara þessar flóttaleiðir vegna þess að ég veit ekki hvað ég ætti annað að gera. Hins vegar hefur þetta áhrif á allt sem ég hugsa og ég er hrædd um að verða kannski eitthvað skrítin.
Þegar lögreglan ruddist inn í flóttamannabúðir í Njarðvík fyrir ekki svo löngu (manni finnst bara langt síðan vegna þess að fólk er löngu farið að hugsa um annað), fór ég strax að hugsa um bók sem ég var nýbúin með, The Trial, og mér fannst augljóst að það eina sem er furðulegt eða "kafkaesque" við bókina er sú staðreynd að K., maðurinn sem ruðst er inn hjá (í bókinni) án útskýringa eða nærgætni var bankamaður á uppleið. Þegar fólk les bókina (eða sér kvikmyndina sem Orson Welles gerði - mjög góð) finnst því þetta fáránlegt - það setur sig í spor aðalpersónu. En þegar fólk heyrir af því að komið sé svona fram (og jafnvel verr) við flóttamenn þá finnst þeim það einhvern veginn eðlilegra. Flóttafólk er öðruvísi en við (þótt mig langi reyndar frekar að kynnast flóttafólki en háttsettum bankamönnum). Þá fór ég að hugsa um mynd sem ég hafði séð 11. september (á degi húsleitarinnar), The Day the Earth Stood Still. Mér fannst hún líka fjalla um það sem gerðist í Njarðvík; um ótta fólks við hið ókunnuga og það hvernig hystería brýst út í umræðu þar sem menn vita almennt ekki um hvað þeir eru að tala. Lögregla eða yfirvöld hafa leyfi til þess að gera hvað sem er vegna þess að allir eru svo sannfærðir um að hinir ókunnugu hljóti að vera hættulegir og vondir. Þetta er bara dæmi um það hvernig ég hugsa þessa dagana, en það breytir engu þótt ég hugsi svona. Það virðist ekki breyta neinu hvernig maður hugsar, nema maður breytist kannski sjálfur við það.
Nú eru margir að hugsa og skrifa á netið, flestir skrifa (hvort sem þeir eru að blogga eða skrifa athugasemdir við blogg) um það sem er að gerast og ég er fegin því. En ég veit eiginlega ekki hvort það breyti nokkru.
Sunday, August 31, 2008
Friday, August 29, 2008
Ó ég er svo merkileg og upptekin en hef samt tíma fyrir barbadókú eða hvað hefur eiginlega gengið á.
Nú hef ég aftur gleymt því að blogga í um það bil mánuð. Ég held að það skipti engu máli. Hins vegar langar mig að afsaka mig, eins og til að friða reiða lesendur sem hafa þrotlaust athugað síðuna mína og orðið fyrir vonbrigðum. Afsakið! Haha, afsakið mig elskurnar mínar. Ég hef verið á hátíðum, mér hefur verið boðið í veislur.
Nú grunar mig að fólk dragi sannleiksgildi þessara staðhæfinga minna um samkvæmislíf í efa. Ég skal þá útskýra nánar. Þetta hófst allt með árshátíð Le Chat Botté, kvikmyndaklúbbsins nafntogaða. Á hátíðina mættu báðir meðlimir klúbbsins og einn gestur. Þessi heiðurgestur kvöldsins var Ingólfur Gíslason, stærðfræðingur og skáld, en flutti hann erindi um persónulegt viðhorf sitt til þess sem hann kallaði ,,vönduðustu kvikmyndaverk tuttugustu aldarinnar" auk þess sem hann stjórnaði umræðum að erindi loknu. Kvöldið náði hámarki þegar skálað var í freyðivíni undir fögrum hljómum kvikmyndatónlistarinnar úr Jurassic Park eftir John Williams.
Næsta hátíð var ljóðahátíð Nýhil, en þá var dansað í þrjá daga og þrjár nætur. Ég held að flestum sem hana sóttu hafi þótt agalega gaman, skáldin voru hvert öðru betra (nokkur voru jafnvel best), og pallborðsumræðurnar í Norrænahúsinu og Þjóðminjasafninu sköruðu jafnan fram úr þeim sem haldnar voru á árshátíð Stígvélaða kattarins.
Svo er það djasshátíð sem enn er í gangi. Ég hef farið á tvenna tónleika enn sem komið er. Aðrir þeirra voru meira að segja upptaka, þannig að ég heyrist að öllum líkindum klappa á geisladisk sem mun koma út einhvern daginn.
Vera og Guðný buðu mér svo í sitt hvora afmælisveisluna, en það eru í mínum huga miklar fréttir vegna þess að í vor hitti í Kakó í strætó og sagði að enginn byði mér lengur í afmælið sitt.
Nú eruð þið eflaust orðin þreytt á því að lesa og pirruð yfir því að þið skiljið ekkert í myndunum sem eru efst. Ég skal hjálpa ykkur með það.
Mynd 1: Barbadókú er eins og súdókú, nema með barbafjölskyldunni í staðinn fyrir tölustafi. Ég er afskaplega hrifin af þessari nýju afþreyingu. Það er vissulega líflegra að hafa allar þessar persónur, sem allar hafa sinn lit og persónuleika sem komið er til skila með fylgihlut eða stellingu, heldur en að hafa tölustafi sem, í samanburði við barbafjölskylduna, líta allir eins út.
Mynd 2: Atriði úr myndinni The Damned Don't Cry, tveir menn með byssur og Joan Crawford. Báðir elska hana og líka einn annar. Það hlýtur að vera þreytandi að vera femme fatale.
Ég vildi bara draga athygli að myndunum hennar Crawford vegna þess að undanfarnar tvær vikur hef ég horft á fimm slíkar - Humoresque, Possessed, The Damned Don't Cry, Grand Hotel og Mildred Pierce. Flestar teljast þær til rökkurmynda (film noir) og ég verð eiginlega að mæla með þeim, sérstaklega þegar rignir úti. Ég er að hita upp fyrir námskeið í háskólanum sem heitir einmitt Rökkurmyndir þannig að bráðum verð ég menntuð í þessu.
Mynd 3: Leikararnir Oskar Werner og Julie Christie sem fara með hlutverk Montags og Lindu/Clarisse í myndinni Fahrenheit 451, en hún er einmitt fyrsta myndin í röð sci-fi mynda sem kvikmyndaklúbburinn sem ég get ekki hætt að tala um ætlar að taka fyrir nú í haust.
Við horfðum semsagt á hana í gærkvöldi og vorum báðar afskaplega hrifnar. Myndin er gerð eftir skáldsögu Ray Bradbury og sýnir hvernig Ameríka gæti barasta orðið í framtíðinni; framtíð þar sem bækur eru bannaðar vegna þess að þær láta fólk hugsa og finna til, en þá hættir það að vera hamingjusamt. Aðalpersónan Montag er slökkviliðsmaður en slökkviliðsmenn í framtíðinni vinna við það að leita uppi bækur og kveikja í þeim. Þetta minnir mig á það þegar ég var að tala við kunningja um það að mér þætti Rape Play ljótur tölvuleikur sem enginn ætti að vera í, en hann talaði þá um það ég vildi bara brenna bækur, til dæmis American Pshyco og The Story of the Eye. Það þykir mjög alvarlegt að vilja brenna bækur út af tjáningarfrelsinu meðal annars.
Aðalatriði:
Leikstjóri: François Truffaut
Tilvitnun:
Clarisse: Is it true that a long time ago, firemen used to put out fires and not burn books?
Montag: Your uncle is right, you are light in the head, put out fires? Houses have always been fireproof.
Sunday, August 3, 2008
Saturday, July 5, 2008
Massaðir saxófónleikarar sem eru berir að ofan og olíubornir og hverfandi býflugur.
Nú átta ég mig á því að allir bíða óþreyjufullir eftir því að ég segi þeim hvaða myndir Le Chat Botté hefur horft á og fílósóferað um síðustu vikur. Ég lái ykkur það ekki, enda yfirleitt um merkustu myndir kvikmyndasögunnar að ræða og við höfum nánast undantekningarlaust komist að óvæntum niðurstöðum sem kætt hafa lesendur þessa bloggs óumræðilega.
Fyrri myndin kallast The Lost Boys, en hún er vampýrumynd frá árinu 1987. Myndin er kannski ekki góð á hefðbundinn mælikvarða, en virkaði vegna þess að ég er með blæti fyrir öllu sem á rætur sínar að rekja til níunda áratugarins og Helga laðast að vampýrum. Myndin fjallar um innri baráttu manns sem kemst í kynni við vampýrur: vill hann vera vondur og töff eða góður og ekki eins töff (um leið og menn urðu vampýrur þá urðu þeir svalari, t.d. fengu þeir sér eyeliner), og auðvitað ,,hvernig næ ég í gelluna í sígaunafötunum? - vill hún vonda blóðsugu eða bara venjulegan gaur?"
Svo lendir önnur sögupersóna í álíka erfiðum vandræðum: á hann að drepa bróður sinn bara út af því að hann sýgur blóð úr sakleysingjum? Hvernig leysum við vampýruvanda borgarinnar?
Semsagt: Mynd sem veltir upp áhugaverðum spurningum, en skilur ekkert sérstaklega mikið eftir. Mikið af yfirgengilega töff atriðum, hárgreiðslum og átfittum. Svo eru líka massaðir saxófónleikarar sem eru berir að ofan og olíubornir í einu atriðinu.
Mynd þessarar viku var hins vegar The Happening, nýjasta myndin sem kvikmyndaklúbburinn hefur horft á til þessa. Myndin er óhugnarleg, að minnsta kosti svo óhugnarleg að ég rak upp óp í bíósalnum og hélt fyrir augun í fimm mínútur. Það tók mig þrjá tebolla eftir myndina að ná mér niður. Ég vissi reyndar hvernig hún myndi enda þegar tuttugu mínútur voru liðnar af myndinni, en þetta er líka bara þannig mynd - sá sem skrifaði handritið gerði það eins og maður á að gera það samkvæmt formúlu sem ég las einu sinni. Myndin hefst á því að Mark Wahlberg (sem er náttúrufræðikennari) spjallar við nemendur sína um það að býflugur hafi horfið frá Bandaríkjunum. Á töflunni fyrir aftan hann eru ummæli Einsteins: "If the bee disappears from the surface of the earth, man would have no more than four years to live." (Það er reyndar ekki víst að hann hafi raunverulega sagt þetta, en þetta virkar vel í svona mynd.) Svo fara hræðilegir atburðir að gerast, mjög hræðilegir, eins og sérst á áhyggjusvipnum á fólkinu á neðri myndinni hér fyrir ofan.
Býflugum hefur reyndar fækkað ískyggilega í Bandaríkjunum og víðar undanfarið. Slavoj Žižek hefur meira að segja skrifað um það á Guardian (sjá hér). Myndin tekur því á vandamálum samtímans (t.d. er líka talað um terroristaárásir í NY og hnattræna hlýnun), og gerir okkur óttaslegin yfir þeim. Ég ætla að reyna að vera róleg yfir þessu öllu saman, að minnsta kosti í dag. Fara og kaupa mér ullarnærbol af því að það er útilega í kvöld. Je.
Friday, June 27, 2008
Albínóapönnukökur í of mikilli sól.
En nú er ég góð.
Í fyrradag birtist eftir mig gagnrýni á kistunni sem ég hvet alla til þess að ýmist lesa eða leiða hjá sér, allt eftir því hvort þeir hafa áhuga og tíma. Það er sumarfrí. Ég ætla ekki að segja ykkur að gera neitt. (en kommon plís, tjekkið aðeins á 'essu)
Í morgun bakaði ég svo pönnukökur í fyrsta sinn á nýju pönnunni sem amma gaf mér í jólagjöf á meðan ég hlustaði á það sem á þessu heimili kallast ,,kaffibarstónlist"*. Þær voru fölar og frekar þykkar, en allar heilar og þær ljómuðu eins og tungl í fyllingu úti í garði þar sem við átum þær í sólinni.
Eftir pönnukökuát fór ég inn og í afskaplega fallegan sumarkjól. Þegar ég var komin í kjólinn fór ég upp í rúm að lesa bók sem Ingólfur er með í láni sem kallast "Annoying Diabetic Bitch" og sofnaði eftir notaleg ljóð á borð við "Jake Gyllenhaal's Dog", "Squid Versus Assclown" og "Fetish Model Life Partner". Það er mikilvægt að glöggva sig á menningararfi annarra þjóða, einkum með því að rúnka sér yfir ljóðum.
Þegar ég vaknaði eftir svona tveggja tíma svefn, öll ringluð og skrítin, reif ég mig úr kjólnum svo ég geti nú látið sjá mig úti á eftir. Ég ætla sko ekki að vera í einhverjum Söruh-Jessicu-Parker-kjól að drekka latte á Austurvelli. Nei, eftir að ég sá myndina um daginn hef ég áttað mig á því hvaða týpa ég á að vera í SexintheCityheimi. Ég er meðal ljótu kvennanna sem helltu rauðri málningu á pelsinn hennar Samönthu. Þessar sem litu út fyrir það að hafa ekki sofið hjá í þrjú ár (nema kannski hjá skeggjuðum marxistum sem horfa framhjá handarkrikahárum - veit ekki hvort það er tekið með í SexandtheCityheimi).
Ætli ég fari ekki bara í götóttar buxur og bol frá 2004 og gangi um bæinn hreytandi ónotum í fólk í háum hælum eða magabol (flestir búnir að hengja pelsana sína upp í skáp yfir sumartímann). Ekki vil ég hafna því hlutverki sem samfélagið hefur falið mér.
*Kaffibarstónlist: tónlist sem hefur mögulega einhverntímann verið spiluð á Kaffibarnum, eða hefði mögulega einhverntímann getað verið spiluð á Kaffibarnum. Tónlistin þessi er svo spiluð í tíma og ótíma á heimilum fólks sem er ekki nógu svalt til þess að nenna á Kaffibarinn, en líður eins og það sé ógeðslega töff þegar það dansar (og bakar mögulega) með þessa tónlist í botni.
Saturday, June 21, 2008
Friday, June 13, 2008
Og svona örlítið til að ljúka bjarnarmálinu..
Þá er það komið á hreint. Þetta var bara svona.. uhh.. hvað kalla menn þetta.. árekstur menningarheima - er það ekki?!
"The prom" alveg eins og ég hafði gert mér það í hugarlund.
Þá næstu:
Í gær sáu meðlimir Le Chat Botté hyllingsmyndina Carrie. Yndislega falleg mynd sem tekur á mikilvægum málum, til dæmis einelti og erfiðleikunum sem fylgja því að eiga móður sem er ofsatrúargeðsjúklingur. Við könnumst öll við vandamálin sem Carrie þarf að glíma við en fæstum okkar tekst að leysa þau jafn vel.
Aðalatriði:
Það sem gerði myndina sérstæða: Magnaðasta ,,ég var að byrja á blæðingum"-atriði sem ég hef séð í bíómynd.
Veitingar: sterkur Drakúlabrjóstsykur.
Niðurstaða: Raunsönn mynd af veruleika bandarískra unglingstúlkna sem vekur alla fjölskylduna til umhugsunar.
Thursday, June 5, 2008
Það var önd á númer áttatíu.
Í fyrradag var önd úti í næsta garði og hún stóð spök á meðan ég myndaði hana.
Í dag fór ég í búð og keypti bók sem ég hef girnst í margar vikur. Bjóst ekki við því að finna hana, en hún fannst í virkilega góðu ásigkomulagi og ódýrt (hækkaði líklega ekkert í kreppunni). Búðareigandi sagði þetta góða bók og bætti því við að Jón Óskar hafi verið afskaplega hrifinn af París. Vera á eftir að pissa í sig af afbrýðisemi, en ég ætla að leyfa henni að skoða bókina, svona af því að það er hún. Þið hin getið gleymt því! GLEYMT ÞVÍ!!
Tuesday, June 3, 2008
Úps, hann varð víst eitthvað pirraður.
Fyrir aftöku: Hvítabirnir eru ekki friðhelgir á landi en þeir eru friðaðir á hafís eða sjó. Heimilt er að fella þá ef talið er að annað hvort fólki eða búfénaði stafi hætta af þeim, að sögn Páls.
Eftir aftöku: Hvítabjörninn er friðaður að íslenzkum lögum á landi, hafís og sundi, en fanga má hann lifandi og flytja þangað sem hann gerir ekki usla. Hann er þó réttdræpur, þegar hann ógnar lífi manna og skepna.
Jæja ókei, hann er semsagt friðaður á landi en verði hann pirraður þá má skjót'ann. Hver er besta leiðin til að pirra stóran hvítan ísbjörn? Öh, til dæmis með því að safna saman svona fimmtíu-sextíu íslendingum í svona sight-seeing ferð.. Ég meina, ég verð oft svo pirruð ef ég er nálægt nógu mörgum íslendingum að ég gæti talist hættuleg.
Ísbjörn á norðurlandi eða ,,drepum helvítið".
Mér finnst allir á fjölmiðlunum gefa í skyn að þeir vilji hann feigann.
Nú er ég ekki dýraverndunarsinni sem, eins og Egill Helgason skrifaði einu sinni á blogginu sínu, vill bara vernda sætustu dýrin. Það er alls ekki satt, ég hef alltaf verið á móti fegurðarsamkeppnum, líka fegurðarsamkeppnum ómennskra-dýra og mismunun þeirra vegna útlits*. Það er ekkert verra að borða hunda og ketti en kindur og svín. En nú er ég komin út í aðra sálma. Ég hef bara áhyggjur af því að íslendingar vilji drepa þennan ísbjörn.. Svona ,,ef hann fer ekki um leið og við biðjum hann um það þá drepum við helvítið"-stemmning.
*Sbr. færsla á bloggi mínu 17. nóvember 2005:
,,Hárlausir kettir eiga undir högg að sækja í baráttu kettlinganna. Sú staðreynd kom mér ekki á óvart í yfirborðskenndri kroppasýningu. Hins vegar heita ljótu kisurnar svalari nöfnum og persónuleiki þeirra er eflaust ekki síðri en þeirra fallegu, líklegra tel ég að ljótu séu dýpri og meðvitaðri en hinir, lausir við hégómleika og hræsni.
http://kittenwar.com/kittens/losers/"
Monday, June 2, 2008
Kynþokkafull kona fer úr öðrum hanskanum vegna þess að hún vill ögra manninum sem hún giftist þegar allir héldu að maðurinn með örið væri dáinn!
Alveg er það dæmigert að um leið og ég læt hinn meðlim kvikmyndaklúbbsins Le Chat Botte, hana Helgu, vita af því að ég héldi utan um það sem við horfðum á (hjer á þessu aumkunarverða bloggi), að ég bara gleymi því um leið að skrifa um það sem við sáum síðast.
Síðast sáum við Gildu, mynd sem við höfðum séð áður en vildum endilega kíkja betur á. Á meðan við drukkum sítrónugos og trönuberjasafa dáðist ég að því hvað Gilda (eða Rita Hayworth öllu heldur) er kynþokkafull. Svo komumst við að þeirri niðurstöðu að þær myndir sem við höfum séð þetta sumarið eiga það sameiginlegt að fjalla um fólk í svona "dysfunctional" samböndum; love-hate, sado-maso og þannig lagað. Það eru náttúrulega einu áhugaverðu samböndin til að sýna. Hver nennir að horfa á par sem tekur tillit til tilfinninga og talar málin út, á meðan maður getur horft á pör sem særa og lemja.
Nákvæmlega.
Ég var hrifin af vonda manninum með örið sem var giftur Gildu í myndinni. Svo gott að hafa illmenni með ör, þá er auðveldara að koma auga á þau. Ég hressi sjálfa mig stundum við með því að sjá fyrir mér illmenni með ör þvert yfir andlitið, hlægjandi uppi í háum, demantsskreyttum turni, þegar ég þarf að sjá fyrir mér óvininn - þegar hann blasir ekki við. Ég skal gefa ykkur dæmi:
1)Ég fer í Nóatún með þúsundkall fyrir kvöldmat. Kaupi ódýrari tómatana og eina melónu fyrir helminginn af peningunum, afgangurinn fer í eitthvað með próteini. Ég kem heim og kemst að því tómatarnir eru linir og flestir óætir, en melónan bragðlaus og vond. Þá sé ég fyrir mér vonda manninn með örið hlæjandi.
2)Ég sit geyspandi eftir stóra og megrunarlausa máltíð þegar vinkona hringir og tilkynnir mér að það sé ,,megrunarlaus dagur". Ég verð hissa af því að ég vissi það ekki, en segi nú samt að ég hafi einmitt verið að borða óhollt þannig að þetta henti svosem ágætlega. En það sem þessi dagur gerði raunverulega var að minna mig á það að líf mitt er ekkert annað en röð megrunarlausra daga á meðan allir aðrir eru í megrun og áttu það skilið að fá svona dag. Aftur, vondi örótti maðurinn tekur bakföll í huga mínum.
Tuesday, May 27, 2008
Beware of the dragon that sits on your doorstep.
Ég er farin í sumarbústað þangað til á fimmtudag.
Bless á meðan.
Monday, May 26, 2008
Hrædd ung stúlka mætir óhræddum djasstónlistarmanni.
Í dag hugsaði ég hvort maður ætti að blogga frá því sem maður gerði, svona almennt, þótt það væri ekki merkilegt - til dæmis eins og að segja frá helginni. Ég komst að þeirri niðurstöðu að fæstir hefðu áhuga á því að lesa það.
Erlu þætti samt sérlega vænt um ítarlega úttekt á því sem ég geri af því hún vinnur í banka - þess vegna ætla ég bara að skrifa það sem mér dettur í hug núna, svona fyrir hana og kannski aðra sem vinna í banka.
Á föstudagskvöld hitti ég einmitt hana Erlu ásamt Hildi og við fengum okkur að drekka í bænum. Við hittum marga og allt var þetta kúl, sérstaklega vegna þess að við enduðum á Kaffibarnum. Þar fékk ég hins vegar svo pótent hiksta að ég gat með engu móti losnað við hann og þurfti því að fara heim. Ég hikstaði alla leiðina.
Daginn eftir horfði ég Going to Pieces: The Rise and Fall of the Slasher Film með kettinum í Stórholti. Ég varð afskaplega æst við að horfa á þá mynd vegna þess að ég fór að hugsa um allar slasher-myndirnar (minnir að það hafi verið þýtt slægjumyndir í textanum) og bara allar hryllingsmyndir sem ég hef haft gaman af því að horfa á frá því að ég var svona tólf-þrettán ára. Fyrst sá ég Scream-myndirnar, I Know What You Did Last Summer eitt og tvö, Urban Legend. Á svipuðum tíma leigði ég Psycho með vinkonu minni af því að ég þóttist nú vita að myndin væri klassísk, en þegar vinkonan sá að hún var svarthvít þá vildi hún ekki horfa og sagði bara ,,díses, þetta er svona bé-mynd". Svo tókst mér með erfiðismunum að svindla mér inn á What Lies Beneath í Laugarásbíó, horfði á Silence of the Lambs og framhaldsmyndirnar, The Shining, The Exorcist, Friday the 13th, Rosemary's Baby og Texas Chainsaw Massacre. Mér finnst reyndar alveg ótrúlegt að ég sá allar myndirnar með einhverjum, nema þá síðastnefndu, vegna þess að ég þekki í raun varla neinn sem hefur gaman af hryllingsmyndum. Ég fann sérstaklega fyrir því þegar ég reyndi að halda hryllingsmyndamaraþon fyrir svona tveimur árum og bauð vinum sem eftir hálfa Nosferatu voru farnir inn í eldhús að drekka bjór og að hugsa um að drífa sig í bæinn. Ég lifi mig bara svo inn í þessar myndir, öskra af hræðslu og hlátri (yfirleitt fyrst af hræðslu svo af hlátri) þótt mér hafi reyndar fundist nýjustu hryllingsmyndirnar sem ég hef séð; Cabin Fever, The Ring og Saw, líklega aðeins of hræðilegar, af því að ég virðist hafa bælt niður allar minningar um að hafa horft á þær.
Jæja, ég varð semsagt svo æst yfir þessari mynd sem fjallar um hryllingsmyndir (eða nánar tiltekið slasher-myndir) að mér þótti það frábær hugmynd að horfa á hana aftur, en núna með Ingólfi. Hann hefur alltaf verið lítið fyrir þessa kvikmyndagrein, en ég hélt að það væri kannski bara út af því að eina hryllingsmyndin sem hann man eftir að hafa séð er Poltergeist þrjú þegar hann var fjórtán ára. Kannski þyrfti hann bara að sjá hvað það er mikið til af myndum. Þetta gekk ekki.
Myndin varð hins vegar til þess að ég ákvað að fara á Prom Night, nýju myndina sem nú er sýnd í Háskólabíói og sjá svo gömlu frá 1980 með Jamie Lee Curtis í aðalhlutverki.
En fyrst fór ég á annan atburð í Háskólabíói, tónleika með Wayne Shorter. Tónleikarnir voru ekki aðeins frábærir af því að þeir urðu til þess að ég missti af júróvisjón, heldur er Shorter og hljómsveitin hans svo rosalega góð. Þeir voru allir óhræddir við að spila án þess að stoppa í svona tæpan klukkutíma. Alveg án þess að stoppa fyrir klapp. Mér fannst afskaplega gaman. Það var samt einhver hálfviti sitjandi fyrir framan mig með ruv.is í símanum sínum að fylgjast með úrslitum júróvisjón. Ég hefði viljað sleppa því að hafa hann.
Ýmislegt gerðist í gær, en það gleðilegasta líklega að það sást til botns í óhreinatauskörfunni í fyrsta sinn síðan Ingólfur flutti í þessa íbúð. Okkur þótti þetta tilefni til þess að skála í bjór. (Það er hins vegar líklega rétt að taka það fram að þetta þýðir EKKI að allt sé hreint - þvotturinn hefur verið flokkaður í snyrtilegar hrúgur á stofugólfið, en þá er hægt að skála aftur þegar það sést í stofugólfið á ný)
Í kvöld fór ég svo á Prom Night og hún var ekki góð. Ég varð ekkert hrædd. Heldur ekki Erla. Svo fannst okkur ljóshærða stelpan (sem var aumingjalegasta final girl sem ég hef séð) og vinkonur hennar leiðinlegar og vitlausar.
Thursday, May 22, 2008
Hvað rímar við tungl? -Ungl!
Tungl Méliès var svo óheppið að fá geimfar í augað.
Í dag gerði ég mér ferð á bókhlöðuna, sem er nú kannski ekki í frásögur færandi, en á þessari síðu segi ég margt sem er bara hreint ekki í frásögur færandi.
Á hlöðunni skoðaði ég bók sem heitir Ritgerðir 1958 (árbók skálda) og rakst þar á greinina ,,Til varnar ungum höfundum" eftir Magnús Magnússon. Í greininni fjallar hann um íhaldssemi gagnrýnenda og almennt þeirra sem eldri eru, en minnist í því samhengi á þjóðsöguna ,,Kolbeinn og kölski". Hann vitnar í kölska þar sem hann segir við Kolbein (sem sumir telja að hafi verið Kolbeinn jöklaskáld): ,,Það er ekki kveðskapur að tarna, Kolbeinn."
Magnús segir það táknrænt að djöfullinn í þjóðsögunum standi fyrir íhaldssemi. (Það jaðrar við því að ég setji broskall hér en ég bara get það ekki.)
Ég fletti þessari ágætu þjóðsögu upp áðan, en í henni ákveða kölski og Kolbeinn að hittast á Þúfubjargi og kveðast á. Kölski kvað fyrri hluta næturinnar fyrri helming vísnanna og Kolbeinn botnaði þær, en seinni hluta næturinnar gerði Kolbeinn fyrri hluta, en kölski átti að botna hjá honum. Þetta var ekki saklaus skemmtun hjá þeim (enda um djöfulinn að ræða), vegna þess að sá sem ekki gæti botnað hjá hinum skyldi steypast af bjarginu og verða uppfrá því á valdi hins.
Kolbeini gengur bara helvíti vel að botna og svo virðist sem kölski ætli ekki að verða síðri þangað til Kolbeinn tekur upp hníf og lætur egg hans bera við tunglið og segir:
,,Horfðu í þessa egg egg
undir þetta tungl tungl"
Þá kemur fát á kölska af því að hann kann ekkert orð sem rímar við tungl. Hann fer í vörn og segir (eins og fram hefur komið að ofan) að þetta sé enginn fokking skáldskapur.
Kolbeini tókst þó sjálfum að botna vísuna með því að tala um ,,lið sem hrærir ungl-ungl". Samkvæmt vísindavefnum er hann að leika sér með orðið úlnliður, af því að framburðarmyndirnar ungliður, úlliður og únliður eru til.
Sagan endar með því að kölski steypist ofan fyrir bjargið og ofan í sjó og biður Kolbein aldrei aftur um að koma að kveðast á.
Sumir kunna náttúrulega bara ekki að tapa.
Geðveikt, en þó heilbrigt fólk og Hitler.
Í gær horfðum við í Stígvélaða kettinum eða Le Chat Botté (lagt hefur verið til að kvikmyndaklúbburinn muni héðan af aðeins ganga undir hinu franska nafni), á A Woman Under the Influence. Virkilega flott mynd sem lét okkur engjast um í sófanum af óþægindum á meðan spennan byggðist upp í löngum og erfiðum senum. Alveg hreint yndislegt. Gena Rowlands leikur geðveika konu af mikilli færni, en hins vegar leið mér þó eins og allir í kringum hana væru miklu geðveikari - bara bældir líka.
Nú flýti ég mér í húsvitjun til gamals kattar í Stórholtinu, en áður vil ég benda á uppáhalds hljóðaljóðið mitt.
Tuesday, May 20, 2008
Frá útimorgunkaffi til geldandi zionista.
"Years ago, I wrote a short story about my mother called ‘The Castrating Zionist’ and I wanted to expand it to a novel."
Í morgun drakk ég kaffi úti í garði og það var bara fínt þangað til að skýjin höfðu skyndilega hrannast upp fyrir ofan okkur og allt hafði í einni svipan orðið rigningarlegt. Mér finnst ekkert betra en það að hafa farið aðeins út - þá getur maður farið aftur inn með góðri samvisku og lagt sig.
Í dag blaðaði ég aðeins í Smásögum ungra höfunda frá 1940-55, en rak augun í það í formála ritstjórans að hann varaði við því að ,,stafsetning, en einkum greinamerkjasetning sé með ýmsu móti í bókinni" og að þrátt fyrir að nokkrir höfundar fari eftir skólavenju um greinarmerkjasetningu, geri það ,,varla neinn út í æsar".
Þetta gladdi mig verulega.
Eftir að hafa gengið í barndóm og öskrað af hlátri og æsingi á meðan ég spilaði súpermaríóbros þrjú með Flóka, róaði ég taugarnar með einhverri skemmtilegustu mynd sem ég hef séð og þarf alltaf að vera að sjá aftur.
Mér líður eins og dagurinn hafi haft upphaf, miðju og endi.
Thursday, May 15, 2008
Stúlka með blóðnasir eða hvernig fer fyrir manni noti maður skírlífsbelti
Kvikmyndaklúbburinn Stígvélaði kötturinn var endurvakinn á eftirminnilegan hátt í kvöld.
Mynd: That Obscure Object of Desire eða Cet obscur objet du désir
Drykkur: rauðvín
Léttar veitingar: þrjú kíló af Quality Street sem amma gaf mér í jólagjöf
Undirtektir: einstaklega góðar
Umræður að mynd lokinni snerust að mestu um masókisma, viðsnúin kynhlutverk og hvers vegna skírlífsbelti hættu að vera móðins.
SúperMaríóBros eða hvernig tiltölulega nýtt online ástarsamband hefur á svipstundu staðnað.
Þetta byrjaði vel, fallega jafnvel. Ég hrópaði upp yfir mig: Stóru bræður mínir ættu að sjá mig núna! og Djöfull er ég fokking geðveik! En núna þegar ég fer á retrouprising.com og spila Super Mario Bros geri ég alltaf sömu hlutina. Næ öllum peningunum í fyrsta borði fyrsta heims og verð stór. Svo fer ég í annað borð og næ mér í hvítu smekkbuxurnar, helling af peningum, aukalíf og svindla mér yfir í fjórða heim. Í fyrsta borði í fjórða heimi næ ég mér í annað aukalíf auk þess sem ég kemst undan þessum ógeðslega pirrandi gaur sem er uppi á skýjinu. Því næst svindla ég mér (úr 2b.4h.) yfir í fimmta heim. Klára með léttum leik fyrstu þrjú borðin þótt ég minnki oft niður í litla gaurinn í brúna bolnum fyrir lokaborðið. En þegar kemur að endakallinum, þá bara.. þá bara get ég ekki. Ég dey alltaf í síðasta borði þótt ég byrji með sjö fökkings líf.
Gæli við þá hugmynd að spila frekar Super Mario Bros 2, vera prinsessan sem ögrar þyngdaraflinu með stórfenglegum hoppum sínum.
Jæja, nú hafið þið eflaust lesið áhugaverðasta texta ævi ykkar. Til hamingju með það.
Wednesday, May 14, 2008
Sjá ég boða yður mikinn bloggunað
Fílselur á góðri stundu.
Ég efast strax um það að ,,unaður" sé hentugt orð til þess að lýsa eftirfarandi skrifum. Það er hins vegar alltaf gott að setja sér háleit markmið, ekki?
Jæja, ég ætla allavega að halda áfram sömu skrifum og ég batt enda á í desembermánuði síðastliðnum. Þá fékk ég ógleði. En nú hef ég tekið gleði mína á ný og hef ákveðið að tilgangurinn með fjarstæðukenndu lífi mínu verði að halda áfram að skrifa um ósýnilega ketti og viðurstyggilega gott veður. Ég varð að finna eitthvað.
Á dögum sem þessum, þegar sólin skín svo ákaft að mér finnst eins og fólk hljóti að sjá í gegnum mig, velti ég mér yfirleitt upp úr því hvað allt er ekki nógu gott. Ég kenni í brjósti um sjálfa mig. Ó aumingja ég! hrópaði ég upp yfir mig rétt áðan - en síðan áttaði ég mig á því að vandi minn er árstíðabundinn. Hann er hluti af því hver ég er. Ég vil bara ekki að sumarið komi.
Ég get staðfest það að þetta sé hluti af mér (og nú fyllist ég stolti yfir því að ég sé samkvæm sjálfri mér), með því að skoða það hvað ég bloggaði 2005-2007. Mhm. Bloggið er það eina sem sannfærir mig um að ég sé raunverulega eitthvað lengur en fimm mínútur í senn. Bloggið kemur í veg fyrir það að ég týni mér.
Dæmi um það að mér getur þótt það sama með einhverra ára millibili:
4. júní 2005
,,Í dag er bölvanlega gott veður. Það gott að ég gat ekki gert það sem ég hafði hug á og hafði skipulagt í þaular. Verið inni, lesið og spilað á píanóið. Ég þoli ekki svona blíðu."
29.apríl 2007
,,Veðrið í fyrradag var sérlega geðslegt. Skýjað, örlítil rigning og rok. Þetta fyllti mig slíkri öryggiskennd að ég brosti allan daginn. Mér þótti sem ævi mín öll þyti hjá frammi fyrir augum mér og allir rigningar-roksdagarnir urðu til þess að ánægjuhrollur læddist niður hryggjasúlu mína."
Auðlesin útgáfa af þessari færslu:
Líf tilgangslaust.
Blogg aumkunarverður tilgangur, en það eina sem ég sé í stöðunni.
Blogg styður ranghugmyndirnar um að ég sé að einhverju leyti söm.