Thursday, May 22, 2008

Hvað rímar við tungl? -Ungl!


Tungl Méliès var svo óheppið að fá geimfar í augað.

Í dag gerði ég mér ferð á bókhlöðuna, sem er nú kannski ekki í frásögur færandi, en á þessari síðu segi ég margt sem er bara hreint ekki í frásögur færandi.

Á hlöðunni skoðaði ég bók sem heitir Ritgerðir 1958 (árbók skálda) og rakst þar á greinina ,,Til varnar ungum höfundum" eftir Magnús Magnússon. Í greininni fjallar hann um íhaldssemi gagnrýnenda og almennt þeirra sem eldri eru, en minnist í því samhengi á þjóðsöguna ,,Kolbeinn og kölski". Hann vitnar í kölska þar sem hann segir við Kolbein (sem sumir telja að hafi verið Kolbeinn jöklaskáld): ,,Það er ekki kveðskapur að tarna, Kolbeinn."
Magnús segir það táknrænt að djöfullinn í þjóðsögunum standi fyrir íhaldssemi. (Það jaðrar við því að ég setji broskall hér en ég bara get það ekki.)

Ég fletti þessari ágætu þjóðsögu upp áðan, en í henni ákveða kölski og Kolbeinn að hittast á Þúfubjargi og kveðast á. Kölski kvað fyrri hluta næturinnar fyrri helming vísnanna og Kolbeinn botnaði þær, en seinni hluta næturinnar gerði Kolbeinn fyrri hluta, en kölski átti að botna hjá honum. Þetta var ekki saklaus skemmtun hjá þeim (enda um djöfulinn að ræða), vegna þess að sá sem ekki gæti botnað hjá hinum skyldi steypast af bjarginu og verða uppfrá því á valdi hins.
Kolbeini gengur bara helvíti vel að botna og svo virðist sem kölski ætli ekki að verða síðri þangað til Kolbeinn tekur upp hníf og lætur egg hans bera við tunglið og segir:

,,Horfðu í þessa egg egg
undir þetta tungl tungl"

Þá kemur fát á kölska af því að hann kann ekkert orð sem rímar við tungl. Hann fer í vörn og segir (eins og fram hefur komið að ofan) að þetta sé enginn fokking skáldskapur.
Kolbeini tókst þó sjálfum að botna vísuna með því að tala um ,,lið sem hrærir ungl-ungl". Samkvæmt vísindavefnum er hann að leika sér með orðið úlnliður, af því að framburðarmyndirnar ungliður, úlliður og únliður eru til.
Sagan endar með því að kölski steypist ofan fyrir bjargið og ofan í sjó og biður Kolbein aldrei aftur um að koma að kveðast á.

Sumir kunna náttúrulega bara ekki að tapa.

No comments: