Wednesday, May 14, 2008

Sjá ég boða yður mikinn bloggunað


Fílselur á góðri stundu.

Ég efast strax um það að ,,unaður" sé hentugt orð til þess að lýsa eftirfarandi skrifum. Það er hins vegar alltaf gott að setja sér háleit markmið, ekki?

Jæja, ég ætla allavega að halda áfram sömu skrifum og ég batt enda á í desembermánuði síðastliðnum. Þá fékk ég ógleði. En nú hef ég tekið gleði mína á ný og hef ákveðið að tilgangurinn með fjarstæðukenndu lífi mínu verði að halda áfram að skrifa um ósýnilega ketti og viðurstyggilega gott veður. Ég varð að finna eitthvað.

Á dögum sem þessum, þegar sólin skín svo ákaft að mér finnst eins og fólk hljóti að sjá í gegnum mig, velti ég mér yfirleitt upp úr því hvað allt er ekki nógu gott. Ég kenni í brjósti um sjálfa mig. Ó aumingja ég! hrópaði ég upp yfir mig rétt áðan - en síðan áttaði ég mig á því að vandi minn er árstíðabundinn. Hann er hluti af því hver ég er. Ég vil bara ekki að sumarið komi.

Ég get staðfest það að þetta sé hluti af mér (og nú fyllist ég stolti yfir því að ég sé samkvæm sjálfri mér), með því að skoða það hvað ég bloggaði 2005-2007. Mhm. Bloggið er það eina sem sannfærir mig um að ég sé raunverulega eitthvað lengur en fimm mínútur í senn. Bloggið kemur í veg fyrir það að ég týni mér.

Dæmi um það að mér getur þótt það sama með einhverra ára millibili:

4. júní 2005
,,Í dag er bölvanlega gott veður. Það gott að ég gat ekki gert það sem ég hafði hug á og hafði skipulagt í þaular. Verið inni, lesið og spilað á píanóið. Ég þoli ekki svona blíðu."

29.apríl 2007
,,Veðrið í fyrradag var sérlega geðslegt. Skýjað, örlítil rigning og rok. Þetta fyllti mig slíkri öryggiskennd að ég brosti allan daginn. Mér þótti sem ævi mín öll þyti hjá frammi fyrir augum mér og allir rigningar-roksdagarnir urðu til þess að ánægjuhrollur læddist niður hryggjasúlu mína."



Auðlesin útgáfa af þessari færslu:

Líf tilgangslaust.
Blogg aumkunarverður tilgangur, en það eina sem ég sé í stöðunni.
Blogg styður ranghugmyndirnar um að ég sé að einhverju leyti söm.

3 comments:

Unknown said...

púki, litli innipúki. Langar þér í ís á Austurvelli í tilefni þessa ógeðs veðurs, eða á ég að taka þig alvarlega og láta þig í friði svo þú getir bloggað óáreitt?
Samt gott að heyra að þú hefur "fundið" þig aftur!
Erla

guðrún elsa said...

Tja.. fundið og fundið. Ég hef að minnsta kosti komist að því að ef maður er týndur er best að lesa gamla texta eftir sig - mann er að finna á milli línanna.

Vera said...

Ég vissi ekki að þú spilaðir á píanó. Mér er skemmt við þessa nýju uppgötvun.
Sammála þér. Blogg er versta tegund af mauvaise foi, en maður reynir...