Friday, June 27, 2008

Albínóapönnukökur í of mikilli sól.

Nú hef ég loksins eitthvað örlítið til að blogga um. Sjáiði til, ég var veik í heila viku, en nú hefur mér batnað. Á þessari viku gerðist ekkert nema ég lá, umlaði og drakk meira te en nokkru sinni fyrr á ævi minni.

En nú er ég góð.

Í fyrradag birtist eftir mig gagnrýni á kistunni sem ég hvet alla til þess að ýmist lesa eða leiða hjá sér, allt eftir því hvort þeir hafa áhuga og tíma. Það er sumarfrí. Ég ætla ekki að segja ykkur að gera neitt. (en kommon plís, tjekkið aðeins á 'essu)

Í morgun bakaði ég svo pönnukökur í fyrsta sinn á nýju pönnunni sem amma gaf mér í jólagjöf á meðan ég hlustaði á það sem á þessu heimili kallast ,,kaffibarstónlist"*. Þær voru fölar og frekar þykkar, en allar heilar og þær ljómuðu eins og tungl í fyllingu úti í garði þar sem við átum þær í sólinni.

Eftir pönnukökuát fór ég inn og í afskaplega fallegan sumarkjól. Þegar ég var komin í kjólinn fór ég upp í rúm að lesa bók sem Ingólfur er með í láni sem kallast "Annoying Diabetic Bitch" og sofnaði eftir notaleg ljóð á borð við "Jake Gyllenhaal's Dog", "Squid Versus Assclown" og "Fetish Model Life Partner". Það er mikilvægt að glöggva sig á menningararfi annarra þjóða, einkum með því að rúnka sér yfir ljóðum.

Þegar ég vaknaði eftir svona tveggja tíma svefn, öll ringluð og skrítin, reif ég mig úr kjólnum svo ég geti nú látið sjá mig úti á eftir. Ég ætla sko ekki að vera í einhverjum Söruh-Jessicu-Parker-kjól að drekka latte á Austurvelli. Nei, eftir að ég sá myndina um daginn hef ég áttað mig á því hvaða týpa ég á að vera í SexintheCityheimi. Ég er meðal ljótu kvennanna sem helltu rauðri málningu á pelsinn hennar Samönthu. Þessar sem litu út fyrir það að hafa ekki sofið hjá í þrjú ár (nema kannski hjá skeggjuðum marxistum sem horfa framhjá handarkrikahárum - veit ekki hvort það er tekið með í SexandtheCityheimi).

Ætli ég fari ekki bara í götóttar buxur og bol frá 2004 og gangi um bæinn hreytandi ónotum í fólk í háum hælum eða magabol (flestir búnir að hengja pelsana sína upp í skáp yfir sumartímann). Ekki vil ég hafna því hlutverki sem samfélagið hefur falið mér.

*Kaffibarstónlist: tónlist sem hefur mögulega einhverntímann verið spiluð á Kaffibarnum, eða hefði mögulega einhverntímann getað verið spiluð á Kaffibarnum. Tónlistin þessi er svo spiluð í tíma og ótíma á heimilum fólks sem er ekki nógu svalt til þess að nenna á Kaffibarinn, en líður eins og það sé ógeðslega töff þegar það dansar (og bakar mögulega) með þessa tónlist í botni.

3 comments:

ingó said...

Ég horfi ekki framhjá handarkrikahárum, in fact ég dýrka þau.

Unknown said...

Skemmtilegur pistill hjá þér Guðrún mín. Ég skal vera memm í ljótu konu hópnum, eftir að ég flutti út á landsbyggðina nenni ég ekki einu sinni að setja á mig púður hvað þá að plokka á mér augabrúnirnar.

Finnur Guðmundarson Olguson said...

Ég las einhvers staðar á netinu að Ingólfur hataði handarkrikahár, en væri bara að ljúga að þér af því þú býrð til svo góðan pottrétt.