Monday, June 2, 2008

Kynþokkafull kona fer úr öðrum hanskanum vegna þess að hún vill ögra manninum sem hún giftist þegar allir héldu að maðurinn með örið væri dáinn!


Alveg er það dæmigert að um leið og ég læt hinn meðlim kvikmyndaklúbbsins Le Chat Botte, hana Helgu, vita af því að ég héldi utan um það sem við horfðum á (hjer á þessu aumkunarverða bloggi), að ég bara gleymi því um leið að skrifa um það sem við sáum síðast.
Síðast sáum við Gildu, mynd sem við höfðum séð áður en vildum endilega kíkja betur á. Á meðan við drukkum sítrónugos og trönuberjasafa dáðist ég að því hvað Gilda (eða Rita Hayworth öllu heldur) er kynþokkafull. Svo komumst við að þeirri niðurstöðu að þær myndir sem við höfum séð þetta sumarið eiga það sameiginlegt að fjalla um fólk í svona "dysfunctional" samböndum; love-hate, sado-maso og þannig lagað. Það eru náttúrulega einu áhugaverðu samböndin til að sýna. Hver nennir að horfa á par sem tekur tillit til tilfinninga og talar málin út, á meðan maður getur horft á pör sem særa og lemja.
Nákvæmlega.

Ég var hrifin af vonda manninum með örið sem var giftur Gildu í myndinni. Svo gott að hafa illmenni með ör, þá er auðveldara að koma auga á þau. Ég hressi sjálfa mig stundum við með því að sjá fyrir mér illmenni með ör þvert yfir andlitið, hlægjandi uppi í háum, demantsskreyttum turni, þegar ég þarf að sjá fyrir mér óvininn - þegar hann blasir ekki við. Ég skal gefa ykkur dæmi:
1)Ég fer í Nóatún með þúsundkall fyrir kvöldmat. Kaupi ódýrari tómatana og eina melónu fyrir helminginn af peningunum, afgangurinn fer í eitthvað með próteini. Ég kem heim og kemst að því tómatarnir eru linir og flestir óætir, en melónan bragðlaus og vond. Þá sé ég fyrir mér vonda manninn með örið hlæjandi.
2)Ég sit geyspandi eftir stóra og megrunarlausa máltíð þegar vinkona hringir og tilkynnir mér að það sé ,,megrunarlaus dagur". Ég verð hissa af því að ég vissi það ekki, en segi nú samt að ég hafi einmitt verið að borða óhollt þannig að þetta henti svosem ágætlega. En það sem þessi dagur gerði raunverulega var að minna mig á það að líf mitt er ekkert annað en röð megrunarlausra daga á meðan allir aðrir eru í megrun og áttu það skilið að fá svona dag. Aftur, vondi örótti maðurinn tekur bakföll í huga mínum.

2 comments:

Sandra said...

ohh vondi örótti maðurinn er svona maður hitaeininga og mettaðrar fitu.. kannski þú ættir samt að bjóða honum í afmælið þitt?

guðrún elsa said...

Vondi örótti maðurinn í turninum stendur fyrir alla óvini sem ekki er hægt að koma auga á í augnablikinu. Hann er til dæmis sá sem fékk hugmyndina að megrunarlausa deginum.

Eini vondi örótti maðurinn sem er boðinn í afmælið mitt er Harry Potter.